Undanþága frá virðisaukaskatti

Miðvikudaginn 28. janúar 2004, kl. 19:20:24 (3604)

2004-01-28 19:20:24# 130. lþ. 52.14 fundur 416. mál: #A undanþága frá virðisaukaskatti# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi GAK
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 130. lþ.

[19:20]

Fyrirspyrjandi (Guðjón A. Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör en finnst þau engan veginn fullnægjandi.

Það er einfaldlega þannig í framkvæmd að aflaheimildir eru seldar án skipa nánast á hverjum einasta degi og örugglega leigðar oftar en seldar. Og þær eru ekki leigðar með skipum, þær eru leigðar sérstaklega eða seldar sérstaklega. Mér finnst því að sú túlkun, virðulegur forseti, að tengja þetta við 12. gr., 1. mgr. 6. tölul., þegar talað er um sölu og leigu skipa sem sé undanþegin virðisaukaskatti, eigi þá að gilda líka um aflaheimildir. Ég tel að þarna sé verið að fara mjög frjálslega með þessa lagaheimild.

Það er alls ekki svo að veiðiheimildir fylgi alltaf skipum. Skip eru seld stundum án veiðiheimilda, nánast veiðiheimildalaus yfirleitt og oft með sárafá eða engin kíló í aflaheimildum. Mér finnast þau rök sem hæstv. fjmrh. færði hér fyrir þessari ákvörðun sem tekin hefur verið í stjórnkerfinu, um að virðisaukaskattur ætti ekki að vera inni í þessum viðskiptum, hæpin. Ég verð að segja það, virðulegur forseti.

Þá spyr ég einnig í framhaldinu: Hvers vegna á þá fiskvinnslan, ef hún leigir aflaheimild og lætur síðan tonn á móti tonni til útgerðar, að skila virðisauka, eins og kemur fram í bréfi ríkisskattstjóra frá því í júlí 2002, en hins vegar ef fiskiskip leigir á það ekki að fá að skila virðisauka og fá innskatt?