Störf þingnefnda

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 10:31:45 (3607)

2004-01-29 10:31:45# 130. lþ. 53.91 fundur 268#B störf þingnefnda# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[10:31]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Enda þótt sjálft þinghaldið hafi legið niðri frá því fyrir hátíðar er ekki þar með sagt að þingmenn séu ekki að störfum og er eðlilegt að þingnefndir komi saman til funda þegar þess er óskað og þörf krefur. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta þingsins og forsætisnefndar á því að í tveimur tilvikum hefur ekki getað orðið af fundum sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs óskaði eftir í janúar. Í öðru tilvikinu var um það að ræða að hv. þm. Jón Bjarnason óskaði eftir því að fjárln. kæmi saman til að ræða niðurskurðinn á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Hæstv. heilbrrh. hafði þá vísað gagnrýni sem fram hafði komið m.a. til fjárln., hann gæti sig hvergi hrært vegna ákvarðana sem þar hefðu verið teknar. Ekki var orðið við þeirri beiðni að kalla nefndina saman.

Hitt málið lýtur að efh.- og viðskn. Alþingis. Þar var nefndin vissulega kölluð saman en hins vegar var aldrei rætt við fjölmarga gesti sem kallaðir höfðu verið á fund nefndarinnar sem boðað hafði verið til samkvæmt beiðni þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Ástæðan voru harðvítugar deilur sem blossuðu upp um hæfi formanns nefndarinnar og að lokum hvort honum væri heimilt að sitja fundi nefndarinnar. Ég harma það að deilur um form hér í þinginu verði til þess að mikilvæg og aðkallandi viðfangsefni, eins og málefni sparisjóðanna í landinu óneitanlega er um þessar mundir, hverfi í skuggann. Ég tel að í þessu tilviki hafi verið of langt gengið og vangaveltur um form og fyrirkomulag drepið á dreif umræðu um mikilvægt málefni.

Herra forseti. Það er eðlilegt að gera alvarlegar athugasemdir við störf þingsins, þegar þjóðfélagið bókstaflega logar í deilum, að þá geti þingið ekki komið saman eða þingnefndir, þær séu óstarfhæfar vegna deilna um form.