Störf þingnefnda

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 10:33:51 (3608)

2004-01-29 10:33:51# 130. lþ. 53.91 fundur 268#B störf þingnefnda# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[10:33]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Mikil umræða hefur farið fram um hæfi þingmanna og sérstaklega um hæfi minnar persónu. Ég vil benda á að hv. þm. Helgi Hjörvar gætir hagsmuna t.d. öryrkja og þykir ekkert að því og ég hef ekkert við það að athuga. Það eru margir aðrir þingmenn sem eru að gæta hagsmuna. Þeir eru kosnir á þing til þess og ég er þess vegna ekki vanhæfur.

Ég vil benda á að við sameiningu SPRON og KB-banka voru samningar þar um undirritaðir fyrir jól. Þeir samningar eru búnir og gerðir þannig að ég hef enga hagsmuni lengur af því hver er staða sparisjóðanna almennt. Ég er ekki stofnfjáreigandi í öðrum sparisjóðum og fundurinn sem átti að halda átti að fjalla um stöðu annarra sparisjóða í kjölfarið. Það var mjög miður að ekki var hægt að ræða þetta og ekki hefur tekist að ræða það enn þá vegna formsatriða þar sem menn hengja sig í form.

Ég vil benda á að allur málatilbúnaðurinn, allt sem sagt hefur verið er ómálefnalegt og hefur ekki verið rökstutt, t.d. varðandi fjárhagslega hagsmuni mína. Ég vil bara segja það að ég hefði meiri hagsmuni af því að SPRON starfaði áfram sem sparisjóður, ég er þar í stjórn og stjórnarlaunin gefa 900 þús. kr. á ári eftir skatt. Ég hefði meiri hagnað af því að SPRON starfaði áfram sem sparisjóður en ekki hlutafélag því að ég verð að hverfa úr stjórninni eftir hlutafjárvæðinguna. Ég mundi græða meira á því. Það er því alveg furðulegur málatilbúnaður að vera að núa mér því um nasir að ég hafi fjárhagslega hagsmuni af þessu. (Gripið fram í: Þú græðir ekki nóg?) Það sem um er að ræða er að ég hef pólitíska hagsmuni af þessu máli og sem betur fer eru þingmenn að berjast fyrir ýmsum málum og mega gjarnan gera það mín vegna og eiga að gera það. Til þess erum við kjörin á þing að gæta hagsmuna þess fólks sem kýs okkur og m.a. er ég að gæta hagsmuna stofnfjáreigenda og annarra, t.d. bænda sem eiga í mjólkursamlögum, og ég er líka að gæta hagsmuna skattgreiðenda. Ég er að berjast fyrir því að lækka skatta og það er ýmislegt sem ég er að berjast fyrir og ég tel mig hafa fullt leyfi til þess og er ekki vanhæfur til þess.