Störf þingnefnda

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 10:36:05 (3609)

2004-01-29 10:36:05# 130. lþ. 53.91 fundur 268#B störf þingnefnda# (aths. um störf þingsins), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[10:36]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það verður að taka á þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp í störfum þingsins og koma hér verkum í gang. Sparisjóðir landsins bíða eftir því að þing komi saman eða þingið taki á málum. Við óskuðum eftir fundi í efh.- viðskn. til þess að taka upp mál sparisjóðanna þar. Það berast áskoranir frá stjórnum sparisjóða og sveitarfélaga um allt land, ákall til Alþingis um að tryggja og standa vörð um sparisjóðina vítt og breitt um landið en efh.- og viðskn. spilar sig stikkfrí í tæknilegum atriðum.

Virðulegi forseti. Enn fremur vil ég minna hér á að hinn 16. janúar sl. ritaði ég formanni fjárln. bréf þar sem óg óskaði eftir fundi í nefndinni hið allra fyrsta til að ræða fjárvöntun heilbrigðiskerfisins og þá sérstaklega þá alvarlegu stöðu sem Landspítali -- háskólasjúkrahús stendur frammi fyrir.

Þegar fjárln. afgreiddi fjárlagafrv. til 3. umr. mótmælti ég því og kvað frv. ekki tækt til lokaafgreiðslu þar sem ekki væri tekið á augljósri fjárvöntun Landspítala -- háskólasjúkrahúss til að halda óbreyttri starfsemi. Fulltrúar stjórnarmeirihlutans héldu því þá fram að nægjanlegt fjármagn væri veitt til sjúkrahússins til þess að þjónustan gæti þróast með eðlilegum hætti og að ekki kæmi til skerðingar starfsemi vegna fjárskorts. Þá væri og til þess séð að kostnaðarhlutdeild sjúklinga ykist ekki. Nú er allt annað komið á daginn og fyrir dyrum standa fjöldauppsagnir starfsfólks og stórfelld skerðing þjónustu.

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. vísaði á fjárlög og fjárln. og Alþingi hvað fjárlög varðaði og möguleika sinn til breytinga hér á. Við höfum fengið ákall frá öllum stærstu samtökum landsins meðal launþega og þeirra sem starfa að almannaheill. Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Læknafélag Íslands, Geðhjálp, Landssamband eldri borgara, Landssamtök hjartasjúkra, Umhyggja, Öryrkjabandalag Íslands kalla á viðbrögð og við fáum ekki fund í fjárln.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir liðsinni hæstv. forseta í þessu máli.

(Forseti (HBl): Vegna ummæla hv. þm. vil ég minna á að samkvæmt 2. mgr. 15. gr. þingskapa segir:

,,Formanni nefndar er skylt að boða til fundar ef ósk berst um það frá a.m.k. þriðjungi nefndarmanna og taka á dagskrá þau mál sem tilgreind eru.``)