Störf þingnefnda

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 10:38:57 (3610)

2004-01-29 10:38:57# 130. lþ. 53.91 fundur 268#B störf þingnefnda# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[10:38]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér finnst afar sérkennilegt að hv. þm. Pétur Blöndal skuli nota tíma sinn hér til þess að halda varnarræðu um hæfi sitt til þess að gegna formennsku í efh.- og viðskn. í þessu tiltekna máli í stað þess að lýsa hér yfir að hann muni auðvitað þegar í stað boða til fundar í nefndinni til þess að fjalla um þetta mál og þar á þingmaðurinn auðvitað að víkja sæti. Það eru flestir sem sjá það nema hv. þm. sjálfur að hann hefur persónulegra og fjárhagslegra hagsmuna að gæta í þessu máli og í því reynir virkilega á siðferði þingmannsins sjálfs að segja sig frá málinu þegar trúverðugleiki hans er dreginn í efa. Og það er alveg ljóst að trúverðugleiki hv. þm. er dreginn í efa í þessu máli.

Það er auðvitað aðkallandi að fjalla um þetta mál. Það er ein og hálf vika, ef ég man rétt, síðan hæstv. forseti kvað upp úrskurð sinn í þessu máli og ég spyr því: Hvað dvelur hv. þm. að boða til fundar í þessu máli og fjalla um það? Núna, sennilega 10. febrúar er boðað til fundar hjá forustu SPRON til þess að fjalla um málið og við verðum að hafa fengið tækifæri til þess að ræða það í efh.- og viðskn. og e.t.v. að flytja frv. um málið til þess að reyna að snúa við þeirri þróun sem er að gerast varðandi sparisjóðina um land allt ef þessi áform ganga eftir varðandi SPRON og KB-banka. Ég hvet því hv. þm. til þess að boða þegar í stað til fundar og sjá sóma sinn í því að víkja sem formaður þegar um þetta mál er fjallað í efh.- og viðskn.