Störf þingnefnda

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 10:40:41 (3611)

2004-01-29 10:40:41# 130. lþ. 53.91 fundur 268#B störf þingnefnda# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[10:40]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tel það ekki vera formsatriði þegar verið er að ræða um vanhæfi þingmanna. Hér í þinginu hafa verið settar mjög strangar reglur um vanhæfi annarra sem kosnir eru, t.d. til sveitarstjórna, og mér finnst að menn gætu haft svolítið auga á þeim reglum sem þar voru settar.

Ég verð að segja það alveg eins og er að það var mér mikið undrunarefni þegar hv. þm. Pétur Blöndal ákvað að taka sæti og bjóða sig fram til stjórnar í SPRON. Og hvers vegna? Vegna þess að þessi sami hv. þm. í umræðum um viðskiptabanka og sparisjóði fyrir tveimur árum var að lýsa því hvers konar völd væru færð í hendur þeim sem sætu þarna í stjórn. Og hann sagði efnislega á þá leið að hann þyrði varla að segja það hvers konar völd þessir menn fengju í hendur, hvað þyrfti að borga þeim til að taka ákvörðunina um að selja. Þetta sagði hv. þm., ekki orðrétt en efnislega hér í ræðustól. Ég var þess vegna mjög undrandi á því að þessi sami þingmaður skyldi taka sæti í stjórn SPRON eins og hann gerði og nú hefur þessi stjórn SPRON setið yfir því að semja um það á annað ár hvað ætti að borga þeim, ekki kannski í peningum, það veit ég ekkert um, heldur í völdum og áhrifum eftir að búið er að gera þennan sparisjóð að hlutafélagi. Þetta er nákvæmlega hættan sem er fyrir hendi með þessu fyrirkomulagi þar sem stofnfjáreigendum er gefið það í hendur að selja aðganginn að sparisjóðunum og það hefur hv. þm. verið að gera. Ég get ekki tekið gildar þær röksemdir sem hv. þm. hefur lagt hér fram og mér finnst það ekki við hæfi að þingmenn taki að sér hlutverk af þessu tagi vitandi fyrir fram hvers konar fyrirbrigði það var.