Störf þingnefnda

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 10:49:41 (3615)

2004-01-29 10:49:41# 130. lþ. 53.91 fundur 268#B störf þingnefnda# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[10:49]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér fer fram mikilvæg umræða sem vert er að taka betur í betra tómi, en mikilvægt er að við gerum greinarmun á persónulegum hagsmunum annars vegar og almennum hagsmunum hins vegar. Ég er að beina orðum mínum jafnt til þingmanna Samfylkingarinnar sem til hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Ég vil vekja athygli á bókun sem ég gerði í hv. efh.- og viðskn. og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hefði að mínu áliti átt að hlífa nefndarmönnum við því að standa frammi fyrir umræðu um hæfi sitt til að stjórna fundi nefndarinnar þegar hún fjallar um málefni SPRON í ljósi þeirra persónulega hagsmuna sem hann hefur óvefengjanlega í því máli. Ég fyrir mitt leyti lýsti yfir að mér þætti eðlilegt að hann viki sem verkstjóri nefndarinnar í málinu að eigin frumkvæði og harma að því skuli hafa verið skotið á frest og stefnt inn í farveg þar sem hætt er við að það festist í tæknilegum álitamálum. Mestu skiptir að málefni sparisjóðanna fái vandaða og málefnalega umfjöllun í þingnefndinni og í kjölfarið skjóta og þinglega meðferð.``

Þetta er afstaða okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði.

Ég verð að segja það, herra forseti, að það er alvarlegur hlutur að krefjast þess að maður víki sem formaður nefndar, og ég vil að það komi fram að að þessu máli undanskildu hefur Pétur H. Blöndal haldið mjög vel á málum sem formaður efh.- og viðskn. En ég ítreka að hann hefði átt að hlífa okkur við þessu --- að eigin frumkvæði.

En að við gerum þá kröfu eða samþykkjum að hann víki úr formannsstóli eða fái ekki að sækja fundi nefndarinnar finnst mér ólýðræðislegt og ótækt. Við eigum að taka þessa almennu umræðu í þinginu. En að kjósa sparisjóðina og málefni þeirra til að flækja okkur í tæknilegum álitamálum finnst mér gagnrýnivert, og því beini ég til þingmanna Samfylkingarinnar.