Sala fasteigna, fyrirtækja og skipa

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 11:06:53 (3620)

2004-01-29 11:06:53# 130. lþ. 53.2 fundur 462. mál: #A sala fasteigna, fyrirtækja og skipa# frv., GÖg
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa sem hæstv. dómsmrh. hefur mælt fyrir. Hér er um gríðarlega mikla réttarbót að ræða og í raun ekkert nema gott um þetta mál að segja. Það er staðreynd.

Ég mun ekki fara yfir einstaka kafla í frv. en vil minna á ýmislegt í því. Með þessu frv. erum við að leggja lóð á vogarskálina og stuðla að því að fá heildarlöggjöf varðandi fasteignir og fasteignakaup.

Á síðasta þingi var gengið frá frv. til laga um fasteignakaup. Það var líka gríðarleg bót varðandi réttarsamband kaupenda og seljenda. En í því frv., sem var til meðferðar hjá hv. allshn., var einnig kafli um svokallaðar ástandsskýrslur fasteigna. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að geyma þann kafla. Þá vinnu vantar enn upp á og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, hann gæti jafnvel svarað því í lokin, hvar sú vinna er stödd. Viðar Már Matthíasson prófessor vann það frv. ásamt því sem hér er. Á það var minnst í niðurstöðu nefndarinnar og í nefndaráliti að þetta væri eitt af því sem ætti líka að hraða. Það væri mjög gott að fá það upplýst. Það er einnig mjög brýnt mál en við sáum að það var stærra en ætlað var og vildum reyna að nýta betur þá reynslu sem hefur fengist hefur í Noregi og víðar og það er mál sem nefndin þyrfti að skoða í framhaldi af þessu.

Ég fagna því hve hratt hefur verið unnið í þessu máli. Ef vinna við þetta frv. hefur byrjað árið 2003 þá er þetta mjög vel af sér vikið.

Ég fagna einnig nýmæli í frv. Ég minnist þess ekki í svona máli að í greinargerð séu færðar athugasemdir þeirra sem fóru yfir málið á vinnslustigi. Þar koma fram athugasemdir frá fasteignasölum, frá ASÍ, frá Neytendasamtökunum o.s.frv. Það er gríðarlega gott að hafa þær til hliðsjónar og mun vafalítið hjálpa nefndinni talsvert við ákveðna vinnu. Bæði gætum við fengið umsagnir fyrr eða hreinlega fengið þessa aðila sem gesti til nefndarinnar. Ég vil meina að þetta nýmæli væri mikilvægt að taka upp í stærri málum sem eru liður í heildarlöggjöf. Ég fagna þessu nýmæli. Þetta gefur í raun mjög góða yfirsýn og maður hefur líka á tilfinningunni að allt sé uppi á borðinu. Ég er ánægð með þau vinnubrögð dómsmrn. að setja slíkt í greinargerð.

Við eigum eftir að fara yfir frv., þetta er bara 1. umr. Við eigum eftir að fara yfir frv. í allshn. Okkar bíður það skemmtilega verkefni og jafnframt að skoða um leið hvernig þetta kemur í samhengi við lögin um fasteignakaupin. Við munum þá skoða ástandsskýrslurnar og úttektina á því húsnæði sem er verið að kaupa.

Undanfarið hefur staða fasteignasala talsvert verið í umræðunni og komið upp mörg leiðindamál þeim tengd í fjölmiðlum. Þessi hópur er oftast að höndla með aleigu fólks. Hér á landi er rík hefð fyrir því að eiga sitt húsnæði. Og þó að húsnæði sé með góðum lánum er fólk að setja allt sem það á í þau kaup. Ég ætla að láta þetta nægja að sinni og hlakka til vinnu í allshn. við þetta mál.