Sala fasteigna, fyrirtækja og skipa

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 11:17:46 (3622)

2004-01-29 11:17:46# 130. lþ. 53.2 fundur 462. mál: #A sala fasteigna, fyrirtækja og skipa# frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hinar góðu undirtektir þingmanna við frv. og tek undir með þeim að það hefur verið vel að verki staðið við gerð frv. og ánægjulegt að þingmenn kunna að meta það hvernig að því verki hefur verið staðið.

Einnig vakti það athygli mína að það var talið til ágætis frv. að það hefði verið sent til umsagnar hjá aðilum á því stigi sem það var í höndum ráðuneytisins. Það er að sjálfsögðu alltaf umdeilanlegt hvernig að slíkum málum skuli staðið því að oft vilja þingnefndir sjálfar náttúrlega stýra því hvernig leitað er umsagna og hafa forgöngu um það. En hér er þetta gert. Ég tel að þetta sé nú kannski frekar undantekning heldur en algild regla við afgreiðslu mála af þessu tagi.

Ég vil aðeins segja út af ástandsskýrslunum að það er mál sem þarf að athuga og gott er að nefndin komi með sína þekkingu inn í það með reynslu sinni af því sem var á síðasta þingi. Í 11. gr. frv., eins og sjá má, er fjallað um svokölluð söluyfirlit. Eins og þingmenn sjá á bls. 42 í greinargerðinni er þar m.a. fjallað um þetta, með leyfi forseta:

,,Þá er lagt til að bætt verði inn lið í söluyfirlit, þ.e. j-lið 2. mgr. frumvarpsins, en þar er lögð sú skylda á fasteignasala að hann sjái til þess að önnur atriði um fasteignina sem kunnugt er um, svo sem skýrslur um ástand eignar sem gerðar hafa verið, komi þar fram. Ástæða þessa er sú að fyrir kemur að ástandsskýrslur séu gerðar um fasteignir, t.d. í tilefni af væntanlegri sölu þeirra. Séu slíkar skýrslur til um fasteign, þótt ekki séu þær nýjar, er eðlilegt að skylt sé að kynna þær fyrir væntanlegum tilboðsgjafa eða a.m.k. upplýsa hann um tilvist þeirra, enda getur mikilsverðar upplýsingar verið þar að finna um ástand eignarinnar og annað sem máli getur skipt.``

Þarna er vikið að þessum skýrslum. Það styrkir náttúrlega seljandann að hafa slíkar skýrslur og hafa þær þannig að þær veiti upplýsingar um raunverulega stöðu eignarinnar. Ég tel því að þarna sé verið að árétta mikilvægi þessara skýrslna en fagna því ef nefndin tekur þetta sérstaklega til athugunar og umræðu.

Varðandi það sem fram kom í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur þá hef ég í sjálfu sér ekki neitt um þau atriði að segja. Mér finnst alveg sjálfsagt að allshn. skoði þá þætti sem hún nefndi. Þetta eru þau álitamál sem menn þurfa að hafa í huga þegar þeir fara yfir frv. og ég vænti þess að í meðförum nefndarinnar komi einnig fram önnur álitaefni sem nefndin telur sér skylt og nauðsynlegt að fara yfir. Ég legg það í hendur nefndarinnar að fjalla um slík efnisatriði og vonandi næst um þau öll góð samstaða í nefndinni áður en yfir lýkur.