Sala fasteigna, fyrirtækja og skipa

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 11:20:51 (3623)

2004-01-29 11:20:51# 130. lþ. 53.2 fundur 462. mál: #A sala fasteigna, fyrirtækja og skipa# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[11:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta hefur nú verið ákaflega hjartnæm stund, þ.e. umræðan um þetta frv. Búið er að fara svo hlýlegum orðum um það að það hálfa væri nóg. Ekki ætla ég nú að fara að spilla gleðinni. Ég dreg síst úr því að þörf er á því að taka á þessum málum. Eins og því miður fréttir á undanförnum vikum, mánuðum og missirum hafa borið með sér eru allt of mikil brögð að því að hlutir séu ekki í lagi þegar þessi miklu verðmæti sem tengjast t.d. fasteignaviðskiptum fara um hendur þeirra sem með þau sýsla. Að því leyti, að sjálfsögðu, er mjög þarft og gott að fá vel unnið frv. sem ég hef svo sem enga þekkingu til að agnúast út í eða setja út á. Ég treysti því að það sé vel og vandlega undirbúið enda hafa þar glöggir menn um vélað og heilmikil undirbúningsvinna er að baki, meira að segja er búið að senda frv. út til einhvers konar forumsagna til nokkurra aðila.

Þó eru auðvitað nokkur atriði sem hlýtur að mega velta aðeins upp og það ætla ég að leyfa mér að gera, ekki síst af því að ég sit ekki í hv. þingnefnd sem fær málið til umfjöllunar. Þar tel ég mig sjá bæði kost og kannski löst eða a.m.k. umdeilanlegri atriði í frv.

Ég held að eitt stærsta og þarfasta ákvæðið sé nýmæli 17. gr. um vörslufjárreikninga og í raun vekur það undrun þegar maður fer að hugleiða það hvers vegna í ósköpunum sú skipan hefur ekki verið við lýði að mönnum væri skylt að halda þeim fjármunum sem þeir taka við frá öðrum og hafa undir höndum tímabundið, vegna þess að þeir eru að koma á fasteignaviðskiptum eða fyrirtækja- eða skipakaupum, aðgreindum frá eigin fjárhag. En þannig mun það ekki hafa verið, öfugt við t.d. lögmenn sem hafa slíkar kvaðir á sér. Eftir því sem manni hefur sýnst af mörgum þeim málum þar sem um misferli eða fjárdrátt hefur verið að ræða í tengslum við fasteignaviðskipti þá hefur það einmitt tengst því að menn hafa freistast til þess að taka sér fé annarra að láni tímabundið, væntanlega með það í huga að þeir mundu ráða við að skila því aftur áður en nokkuð kæmist upp. En svo hefur það ekki gengið eftir. Það að hafa þetta algerlega aðskilið á sérstökum reikningum og hafa það ótvíræða lagaskyldu hlýtur að teljast þarna til mikilla bóta.

Hitt atriðið, herra forseti, sem ég hef staldrað aðeins við er fyrirkomulag varðandi eftirlit með fasteignaviðskiptum. Hér er valin sú leið, sem sjálfsagt eru ýmis gild rök fyrir, að setja það eftirlit í hendur á félagi, í raun eftirlitsnefnd félagsskaparins sem í hlut á. Í III. kafla frv. er með öðrum orðum gengið þannig frá í fyrsta lagi að fasteignasalar skulu hafa með sér félag sem nefnist Félag fasteignasala og er þeim öllum skylt að vera þar félagsmenn. Hér er sem sagt allt í einu komin í frv. tillaga um skylduaðild að félagsskap og er það nokkuð athyglisvert í sjálfu sér, ekki síst af því að það er flutt af hæstv. dómsmrh. Birni Bjarnasyni.

Nú minnir mig að ég hafi oft orðið vitni að umræðum og tekið þátt í umræðum þar sem menn hafa haft allt á hornum sér út í fyrirbærið skylduaðild að þessu eða hinu og svo sem ekki að ósekju því að einn af grundvallarhornsteinum frelsisins er jú að mönnum sé frjálst að velja sér aðild að félögum eða að vera ekki í þeim. Þess vegna hlýtur að þurfa að fara vandlega yfir það hvort þetta er í fyrsta lagi réttlætanlegt, hvort þetta stenst, og þá í öðru lagi hvort þetta sé besta fyrirkomulagið varðandi þetta eftirlit.

Ég tek það skýrt fram að ég er ekki í þeim hópi sem á í neinum sérstökum erfiðleikum með að skylduaðild geti átt rétt á sér, enda liggi svo brýnir hagsmunir á bak við að réttlætanlegt sé að leggja slíkar kvaðir á menn. Það út af fyrir sig, að mínu mati, þarf ekki endilega að eiga við hér vegna þess að það er alveg hægt að hugsa sér að koma þessu eftirliti fyrir öðruvísi, t.d. með því að hafa opinbert eftirlit, þ.e. að hið opinbera annist eftirlitið og það sé ekki í höndum félagsmannanna sjálfra eða félagsskapar þeirra. Sú leið er valin í fjármálaheiminum. Þar er opinbert eftirlit, Fjármálaeftirlitið. Það er ekki félag viðskiptabanka og verðbréfafyrirtækja og annarra slíkra aðila sem kemur á eftirlitsnefnd til að annast eftirlit á þann hátt að menn hafi þannig lagað séð eftirlit með sjálfum sér, heldur öfugt. Sama er að segja um Samkeppnisstofnun, samkeppnisyfirvöld og samkeppniseftirlit. Það er ekki í höndum einhvers konar félagsskapar þeirra sem í hlut eiga heldur er þar um opinbert eftirlit að ræða. Auðvitað er stutt úr Fjármálaeftirlitinu, sem m.a. tók yfir verkefni Vátryggingaeftirlitsins á sínum tíma, yfir í það að hafa eftirlit með fasteignaviðskiptum. Það er ekkert löng leið þar á milli og hefði auðvitað alveg getað komið til greina að þetta eftirlit væri deild þar.

En hér er sem sagt valin sú athyglisverða leið að hafa skylduaðild að Félagi fasteignasala og það er rökstutt og ágætlega að mínu mati með því að svo brýnir hagsmunir séu í húfi að koma við þessu eftirliti og tryggja að þetta fari allt saman vel fram að það réttlæti skylduaðildina. Ég tel þetta mikilsvert fordæmi og áhugavert og verður örugglega oft til þess vitnað í framtíðinni.

Um þessa hluti hefur iðulega verið deilt harkalega og mál hafa gengið til dómstóla út af slíkum hlutum, t.d. skylduaðild að félögum leigubílstjóra, sendiferðabílstjóra eða öðru slíku. Það hefur verið rökstutt af stjórnvöldum að réttlætanlegt gæti verið að viðhafa þar skylduaðild vegna þess að mikilvægir almannahagsmunir væru fólgnir í þeirri stjórnsýslu sem færi fram í gegnum félögin eða þeirri skipulagningu mála sem færi fram í gegnum það að um slíkan félagsskap væri að ræða og menn öðluðust réttindi í gegnum félagið.

Þá vil ég sérstaklega víkja að því hvernig þetta er orðað í 1. málslið 18. gr. Þar er sagt, með leyfi forseta:

,,Fasteignasalar skulu hafa með sér félag sem nefnist Félag fasteignasala. Er þeim öllum skylt að vera þar félagsmenn.``

Án þess að hafa hugsað þetta mikið og vera jafnlögfróður og þeir snillingar sem hafa samið þetta frv. þá hefði ég leitað annarra leiða varðandi orðalag í þessum efnum og reynt að binda skylduaðildina með beinum hætti við þau réttindi sem menn öðluðust gegnum félagsaðildina þannig að það væri í sjálfu sér svo að menn gætu staðið utan félagsins. En þá yrðu þeir af þeim réttindum sem fylgja því að vera félagsbundnir og falla undir eftirlitið o.s.frv.

Nú kunna menn að segja að þetta komi út á eitt og það út af fyrir sig getur verið svo. En orðalagið gæti þarna skipt máli, þ.e. að það væri algjörlega á hreinu að tengingin við skylduaðildina væru þau réttindi sem menn öðluðust þar með. Fyrir því eru sem sagt gild rök að fara þá leið.

Ég geri ráð fyrir því að hv. allshn. muni athuga þetta mjög rækilega og tryggja að hér sé alveg róið fyrir hverja vík og engar gryfjur í málinu. Þetta er þó að mörgu leyti fyrirkomulag sem má velta fyrir sér og hafa jafnvel efasemdir um. Það sést líka af því t.d. að ráðherra gefur út löggildinguna, ráðherra gefur út starfsleyfin, en nefnd samtaka þeirra sem í hlut eiga, eftirlitsnefnd Félags fasteignasala getur hins vegar ógilt löggildinguna og tekið af mönnum, að vísu tímabundið, þá löggildingu sem ráðherra hefur gefið út. Það vald er því í raun framselt með þeim hætti til eftirlitsnefndarinnar, ef ég hef áttað mig rétt á þessu. Það er að vísu eingöngu gert ráð fyrir tímabundinni sviptingu og það er málskotsréttur til ráðherra þannig að sjálfsagt stenst málið í því ljósi. En þetta er fremur óvenjulegt sýnist mér engu að síður. Hvers vegna í sjálfu sér þetta fyrirkomulag er valið og hentar þá væntanlega betur þessari tegund viðskipta en ýmsum öðrum, treysti ég mér svo sem ekki til að fara mikið út í. Ég hef ekki þaullesið rökstuðninginn fyrir því nægjanlega til þess.

Herra forseti. Ég vona að þessar vangaveltur mínar sem leikmanns hafi ekki spillt ánægjunni yfir því að menn skulu vera komnir með þetta frv. í hendur og þessari hjartnæmu stund sem hér hefur verið í umræðum um það, en það helgast að sjálfsögðu af því að það er auðvitað mikil ánægja með að til standi að reyna að koma þessum málum í betra horf en verið hefur að undanförnu. Það er eiginlega ekki hægt að segja annað en að stétt fasteignasala hafi orðið fyrir verulegum álitshnekki á undanförnum mánuðum vegna þess hversu oft þar hafa komið upp vafasöm mál.