Lögmenn

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 11:54:09 (3631)

2004-01-29 11:54:09# 130. lþ. 53.3 fundur 463. mál: #A lögmenn# (lögmannsréttindi, EES-reglur o.fl.) frv., SKK
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[11:54]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að frv. það sem hér er til umræðu, frv. til laga um breyting á lögum um lögmenn, nr. 77/1998, með síðari breytingum, er ákaflega mikil réttarbót og því ber að fagna að hæstv. dómsmrh. hafi lagt það fram í þeirri mynd sem það er hér og hefur verið kynnt svo ágætlega.

Frumvarpið og efnisatriði þess er eins og ég sagði mikil réttarbót fyrir lögmenn og fyrir laganema og ekki síður fyrir lagadeildir háskólanna í landinu og því ber sérstaklega að fagna. Ég vil vekja athygli á að í því er mjög mikilvægt nýmæli og líklega eitthvert merkilegasta nýmælið í þessu frv., þ.e. í a-lið 4. gr. Þar eru lagadeildir allra háskóla á Íslandi í fyrsta skipti í réttarsögunni jafnsettar sem þýðir það að komið er á fullkomnu jafnræði milli lagadeildanna. Það þýðir jafnframt að laganemar við einstakar lagadeildir eru jafnsettir nú, þ.e. verði frv. að lögum, og þetta er gríðarleg réttarbót fyrir þá og mikið framfaraskref í löggjöfinni að þessu leyti.

Ég vil líka nefna að það er mikilvægt og mjög ánægjulegt nýmæli í 6. gr. frv. sem fjallar um skilyrði þess að menn geti aflað sér málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti. Eins og kerfið var hér áður fyrr var sérstök nefnd sem tók ákvarðanir um það hvaða mál teldust vera slík að umfangi að þau gætu talist prófmál fyrir Hæstarétti. Í þeirri nefnd sat m.a. lögmaður sem tók ákvörðun um það gagnvart sínum samkeppnisaðilum hvort þeir gætu aflað sér málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti. Hér er komin á miklu eðlilegri og sanngjarnari regla en áður var sem gerir það að verkum að það er Hæstiréttur Íslands með dómaraskipan sinni sem ákveður það í rauninni hvort einstök mál teljist slík að umfangi að þau geti talist prófmál.

Mig langar til þess að víkja að b-lið 4. gr. sem varðar skilyrði þess að menn geti aflað sér málflutningsréttinda í héraði. Skilyrði til þess að afla sér málflutningsréttinda í héraði hafa á síðustu árum verið hert mjög verulega. Við munum það að hér áður fyrr í hinu svokallaða gamla kerfi var staðan þannig að útskrifaðir lögfræðingar frá Háskóla Íslands gátu aflað sér málflutningsréttinda með því að flytja fjögur prófmál undir handleiðslu lögmanns fyrir héraðsdómstólunum, en skilyrðin voru síðan hert mjög verulega fyrir nokkrum árum þegar komið var á svokölluðu lögmannanámskeiði eða námskeiði til öflunar málflutningsréttinda. Þá var útskrifuðum lögfræðingum gert skylt að sækja námskeið, sem reyndar var skyldumæting á, öfugt við það sem verið hefur í háskólanum, tiltölulega þungt námskeið sem lauk með prófraun til öflunar málflutningsréttindanna.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að öflun málflutningsréttinda skiptir mjög miklu máli fyrir atvinnumöguleika nýútskrifaðra lögfræðinga og ég tel að það sé mjög mikilvægt að þeir þröskuldar sem settir eru fyrir einstaklinga til að afla sér atvinnuréttinda hvort sem er fyrir dómstólum eða annars staðar, eigi að vera eins lágir og mögulegt er. Þeir lögfræðingar sem útskrifast í dag hafa í minnsta lagi lokið fimm ára háskólanámi. Útskrifaðir lögfræðingar hafa líka töluverða starfsreynslu og þurfa að ljúka henni meðfram námi sínu. Það er í minnsta lagi tveir mánuðir en langflestir sem ljúka námi frá lagadeildunum hafa starfað á lögmannsstofum, hjá dómstólunum eða öðrum aðilum í mun lengri tíma en tvo mánuði. Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir þetta fólk að það hafi sem greiðastan aðgang að stéttinni og það hafa komið fram, eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson benti á, ábendingar frá Orator, félagi laganema, um að það sé mikilvægt að endurskoða b-lið 4. gr. frv. sem kveður á um það að skilyrði þess að menn geti aflað sér málflutningsréttinda á námskeiði séu þau að menn hafi öðlast starfsreynslu, ýmist sex mánuði hjá lögmanni eða eitt ár sem fulltrúar ríkissaksóknara, lögreglustjóra eða annarra opinberra aðila.

Ég tel að það sé vert að huga að því að fella þetta skilyrði niður og hef tjáð mig um það áður og ég vona að hv. þm. í hv. allshn. taki undir það með mér. Ég tel að með slíkri breytingu yrði þetta góða frv., ég vil taka fram þetta mjög góða frv., enn betra. Og menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að dregið sé svo verulega úr kröfum til lögfræðinga sem þreyta þessa prófraun um starfsreynslu ef þetta skilyrði verður fellt niður vegna þess að við erum einungis að tala um heimildir útskrifaðra lögfræðinga til þess að sækja námskeiðið og þreyta prófraun. Því er alveg ljóst að meðan þeir sækja námskeiðið a.m.k. þeir sem eru komnir í vinnu og flestir sem fara í þetta námskeið hafa starfað um nokkurra mánaða skeið áður en að prófrauninni kemur. Ég tel því að við eigum að standa vörð um réttindi nýútskrifaðra lögfræðinga, eins og sannarlega er gert í frv., en lækka þá þröskulda sem nú þegar eru í löggjöfinni og í þessu frv. til að komast inn í lögmannastéttina. Ég tel að það ætti að breyta þessu ákvæði laganna, ég tel að það væri frv., sem er annars mjög gott, til framdráttar og bóta og vona að félagar mínir í allshn. taki það atriði til athugunar.

Að öðru leyti fagna ég því að þetta frv. sé komið fram á því formi sem það er. Það er vel unnið og er eins og ég sagði áðan mikið framfaraskref og réttarbót á þessu sviði laganna.