Umferðarlög

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 12:10:44 (3634)

2004-01-29 12:10:44# 130. lþ. 53.4 fundur 464. mál: #A umferðarlög# (öryggi barna, gjöld, EES-reglur o.fl.) frv., GÖg
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[12:10]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera örstuttar athugasemdir. Ég veit ekki hvort eigi að fagna einu eða neinu í þingsölum en það sem er verið að gera er að það sem var áður sett í reglugerð er orðið skýrara í lögunum, kannski fyrst og fremst um 1. gr., og áhöld um hvort það eigi að vera í lagatextanum eða í reglugerð t.d. hvað varðar reiðhjólin.

Mig langar að benda á það ánægjulega við þessi litlu rafknúnu hjól. Þetta er náttúrlega afar vistvænn ferðamáti og hentar alveg sérstaklega vel í lítilli borg eins og Reykjavík og úti á landsbyggðinni. Það er því möguleiki fyrir þingmenn að leggja öðrum bílnum og fara á lítið rafknúið hjól.

Það á kannski ekki eftir að vera mikil ánægja með ökuritann. Það var mikil umræða um hann á sínum tíma sem á eflaust eftir að koma upp aftur í hv. allshn. Það er einkenni okkar samfélags að við viljum vinna mjög mikið, en ekki verður um afturvirkni að ræða þannig að það mun eflaust gleðja bílstjóra um margt. Við munum eflaust hitta fulltrúa frá Umferðarstofu og ýmsa aðila vegna málsins. En það er margt til bóta í frv. og ég er voða fegin að sjá að við erum ekki kaþólskari en páfinn með því að leyfa þessi nýju úrræði með rafmagnshjólin sem eru út um alla Evrópu í dag.