Umferðarlög

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 12:17:38 (3636)

2004-01-29 12:17:38# 130. lþ. 53.4 fundur 464. mál: #A umferðarlög# (öryggi barna, gjöld, EES-reglur o.fl.) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[12:17]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að vekja máls á þessum þáttum. Eins og ég vék að í ræðu minni er þetta álitaefni sem við stöndum frammi fyrir. Við erum að innleiða og þurfum að fara eftir alþjóðaskuldbindingum sem við höfum gengist undir með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu annars vegar og hins vegar þarf að taka tillit til sérstakra aðstæðna í landi okkar. Sjálfsagt mun samgn. fara yfir þetta enn og aftur og þingmenn hafa oft fjallað um þetta mál.

Ég tel að í þeirri umfjöllun þurfi einnig að líta til þeirra þátta sem hv. þm. nefndi. Ef það er verið að mismuna mönnum eftir því hvaða tæki þeir stjórna hverju sinni þá þarf að skoða það. Okkur sem höfum eftirlitsskyldum að gegna varðandi þessa þætti, t.d. við stórframkvæmdir, hafa borist kvartanir. Menn telja að þar séu menn að vinna á tækjum án þess að hafa réttindi til þess. Einhverjar kröfur eru gerðar á því sviði eins og annars staðar.

Ég tel einnig að samgn. eigi, þegar hún fjallar um þetta mál, að fara yfir slysatíðni og átta sig á því hvað hefur komið upp í umferðinni á undanförnum árum varðandi þá bíla sem þarna eiga sérstaklega hlut að máli. Það þarf að kanna. Auðvitað eru þessar reglur ekki settar að tilefnislausu. Þær eru settar til að koma í veg fyrir slys og draga úr hættu á slysum og auka öryggi í umferðinni. Mér finnst sjálfsagt fyrir samgn. að fara yfir þá þætti líka og fá sérfróða menn til viðræðna við sig um það. Er það svo þegar litið er á umferðarmál hér á landi að slys séu tíðari hjá þeim stóru bílum sem lúta þessum reglum eða ekki? Fara þarf ofan í þetta. Nú er komin ákveðin reynsla til að miða við þegar við fjöllum um þessi mál. Ég er þess fullviss að litið verði til allra þessara þátta í yfirferð samgn. Það er ekki tilviljun að ég skuli nefna þetta sérstaklega í ræðu minni þegar ég flyt frv. Ég tel fullt tilefni til þess enn og aftur að huga að þessum málum með hliðsjón af okkar sérstöku hagsmunum.