Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 14:02:17 (3644)

2004-01-29 14:02:17# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hef alltaf gaman af því að fylgjast með tilþrifum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. En ég held að starfsmönnum Landspítala -- háskólsjúkrahúss og þeim sem leita þangað þjónustu, lækningar og aðhlynningar sé ekkert sérstaklega skemmt.

Ég held að einhver óskammfeilnasta yfirlýsing, einhver grófasta skrumskæling á sannleikanum sem heyrst hefur frá ráðherrum í einni ríkisstjórn hafi verið þegar því var lýst yfir fyrir fáeinum dögum að ríkisstjórnin mundi standa við bakið á stjórnendum Landspítala -- háskólasjúkrahúss við niðurskurð á þjónustu. Með öðrum orðum, þegar stjórnendur spítalans lokuðu deildum og skertu þjónustu mættu þeir treysta því að ríkisstjórnin mundi ekki bregðast þeim. Hún mundi standa sem klettur að baki starfsmannastjóra þegar uppsagnarbréfin yrðu send út.

Mig langar til að vitna í frásögn Morgunblaðsins daginn eftir að fulltrúar launafólks komu að máli við heilbrrh. að afloknum fundi á þriðja hundrað trúnaðarmanna á sjúkrahúsinu. Þeir höfðu komið saman til þess að mótmæla fjöldauppsögnum og harkalegasta niðurskurði á þjónustu í sögu spítalans.

Morgunblaðið vitnar í hæstv. fjármálaráðherra landsins, Geir H. Haarde, af þessu tilefni á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

,,Geir tekur fram að ríkisstjórnin styðji við bakið á stjórnendum spítalans í sparnaðaraðgerðunum. ,,Ég tel, að því er ég best fæ séð, að þeir hafi staðið afar vel og fagmannlega að þessu,`` segir hann. ,,Mér sýnist að aðgerðirnar séu minni að umfangi en margir höfðu talið.````

Þannig metur hæstv. fjmrh. stöðuna og talar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um aðgerðir sem m.a. fela eftirfarandi í sér: Líknardeild sjúkrahússins er í uppnámi. Endurhæfing fyrir fjölfatlaða og krabbameinssjúklinga verður lögð niður og alls óvíst um framtíð þeirrar þjónustu. Verið er að segja upp starfsfólki á geðdeildum með þeim afleiðingum að þjónusta þar verður dregin saman. Rætt er um að loka bráðamóttöku fyrir hjartasjúklinga, vistmönnum í Arnarholti, þar sem er langdvalardeild fyrir 40 geðsjúklinga, er haldið í óvissu um hvort heimili þeirra verður lagt niður og hvað þeirra bíður þá. Fram hefur komið að öll svið sjúkrahússins verða fyrir aðhaldsaðgerðunum, það starfsfólk sem eftir verður mun finna fyrir meira vinnuálagi og sjúklingar fyrir skertri þjónustu. Hreingerningarnar, sem eru undirstöðuþáttur í starfsemi sjúkrahússins, verða minnkaðar um 10%. Áður hefur verið þrengt að hreingerningafólki en nú skal það gert í alvöru.

Á döfinni er að fækka um tvö hundruð störfum á Landspítalanum en skerðingin tekur til miklu fleiri og vísa ég þar í orð Einars Oddssonar, formanns starfsmannaráðs Landspítalans, sem segir í viðtali við DV á dögunum að skerðingin taki til fimm hundruð manns, sem er 12% af mannaflanum.

Svo er að skilja á Geir H. Haarde, hæstv. fjmrh., að allt þetta beri vott um einstaklega fagmannleg vinnubrögð. En ég spyr: Fagmannleg vinnubrögð í þágu hverra? Ekki þeirra sem starfa við að lækna og hjúkra veiku fólki. Ekki er þetta í þágu skattborgarans eða þeirra sem eiga að greiða fyrir þjónustu því kostnaðurinn af niðurskurðinum mun koma fram annars staðar í þjóðfélaginu. Aðhaldsaðgerðirnar, segja formenn tveggja stórra stéttarfélaga í Morgunblaðsgrein í gær, munu leiða til aukins kostnaðar og allra síst er fagmannlega að verki staðið fyrir hönd sjúklinga sem verða fyrir stórskertri þjónustu.

En fyrir hina sem hagnast á þessari handstýrðu kreppu kann að vera ástæða til að hrósa vinnubrögðunum. Ég hef velt því fyrir mér hvort það virkilega geti verið að samanburðarskýrslan sem gerð var í sumar á sjúkrahúsum í Bretlandi annars vegar og á Landspítalanum hins vegar hafi verið gerð með það í huga að finna ástæðu fyrir niðurskurði. Valin voru sjúkrahús á erlendri grundu sem hafa verið í löngu svelti. Sýnt var fram á að þar sé unnið fyrir minni kostnað en hér, þess látið ógetið að þjónustan er líka lakari, spítalarnir bresku skila minni árangri. Menn staðnæmdust einvörðungu við hinn peningalega samanburð og þóttust þar finna réttlætingu fyrir niðurskurði.

Sama gildir um OECD-tölurnar sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson vék að. Það er rétt sem hann sagði að Ólafur Ólafsson, formaður eldri borgara í Reykjavík, hefur verið óþreytandi að sýna fram á að tölur við kostnað af heilbrigðiskerfinu eru lægri en fjmrn. hefur viljað láta í veðri vaka. Ólafur hefur margoft bent á, og það höfum við einnig gert í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að í tilkostnaði okkar sé kostnaður við öldrun og félagsleg málefni sem önnur lönd hafa ekki í sínum tölum um heilbrigðisþjónustuna.

En hvers vegna skiptir þetta máli? Hvers vegna skiptir þessi talnasamanburður máli? Hann skiptir máli vegna þess að á talnagögnum af þessu tagi byggja markaðssinnar kröfu sína um niðurskurð. Og hvers vegna vilja þeir niðurskurð? Þeir vilja koma þjónustunni út fyrir veggi sjúkrahúsanna og út á markaðstorgið.

Undir þessi sjónarmið tók Halldór Ásgrímsson, formaður Framsfl., í sjónvarpsviðtali í gær. Hann sagði að menn mættu ekki gleyma því að til væru sérfræðingar utan veggja sjúkrahúsanna sem gætu sinnt þjónustu sem ýtt væri þaðan út. Hann sagði að menn væru að gera mjög áhugaverðar tilraunir í heilbrigðiskerfinu og það yrði haldið áfram á þeirri braut. Formaður Framsfl. lagði áherslu á að hann væri endurskoðandi að mennt og gaf í skyn að hann bæri skynbragð á þessa hluti.

En fróðlegt væri að vita hvers vegna gengur eins illa og raun ber vitni að fá úttekt á þessum tilraunum ríkisstjórnarinnar um samhengið á milli gæða og tilkostnaðar. Þar sem sá samanburður á annað borð hefur verið gerður hefur ákveðin formúla komið í ljós. Laun plús rekstrarkostnaður er minni en laun plús rekstrarkostnaður plús hagnaður. Svo einfalt er það mál. Og ég spyr hvort endurskoðandi, sem ekki viðurkennir þetta, hljóti ekki að hafa eitthvert óhreint mjöl í sínum pólitíska poka.

Reyndar sagði formaður Framsfl., sem jafnframt er utanríkisráðherra landsins, að sín reynsla væri sú að ef starfsmenn utanrrn. veiktust erlendis væri þeirra fyrsta hugsun að komast heim. Og nú spyr ég: Er þetta þá ekki kerfi sem okkur ber að varðveita og bæta í stað þess að brjóta það niður? Ef við ráðumst í samanburð við erlend sjúkrahús eigum við þá ekki að líta á það sem vel er gert, eigum við ekki að fagna afrekum okkar fólks í stað þess að grafa undan því og veikja þjónustuna?

Ef það er rétt sem hæstv. heilbrrh. sagði í Kastljósi sjónvarpsins í fyrradag, að biðlistar væru að styttast, er það ekki gott? Getur það virkilega verið verkefnið núna að lengja þessa biðlista?

Og aftur að talinu um fagmannleg vinnubrögð og tilraunir til þess að koma pólitískri ábyrgð yfir á herðar starfsmanna sjúkrahússins þá langar mig til að vitna í viðtal við Magnús Pétursson, forstjóra Landspítalans, í DV fyrir réttri viku. Hann segir alveg ljóst vera að miðað við þá þjónustu sem spítalinn væri að veita og af honum væri vænst þá dugi ekki fjárveitingarnar.

Orðrétt segir hann, með leyfi forseta:

,,Ég er sannfærður um að öryggið verður minna en það var. Það verður gengið nær öryggismörkum varðandi gæslu sjúklinga sem liggja á spítalanum. Biðlistar kunna að lengjast eftir hjartaþræðingu og öðrum aðgerðum, og bið eftir þjónustu á slysa- og bráðasviði lengist að öllum líkindum.``

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. sagði í fyrrnefndu sjónvarpsviðtali að nú væri mál að kostnaðargreina verkþætti sjúkrahússins, væntanlega til þess að auðveldara væri að ákveða hvar ætti að byggja upp og hvar ætti að skera niður. En átti ekki að gera þetta fyrst, ákveða síðan framhaldið?

Ríkisstjórnin hefur sýnt vítavert ábyrgðarleysi gagnvart sjúkrahúsinu, starfsmönnum þess og að sjálfsögðu þeim sem sjúkrahúsið á að þjóna, veiku fólki. Hv. þm. Jónína Bjartmarz, formaður heilbr.- og trn. Alþingis, hefur ljómað af hamingju yfir þessum ráðstöfunum og segir þjóðarsátt um heilbrigðisþjónustuna í landinu. Það er rétt. En það ríkir engin þjóðarsátt um aðför ríkisstjórnarinnar að heilbrigðisþjónustunni. Um það ber merki sú alda sem risið hefur í landinu af hálfu samtaka sjúklinga og verkalýðshreyfingar, sú alda hefur aldrei risið eins hátt og nú ber raun vitni.