Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 14:10:59 (3645)

2004-01-29 14:10:59# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Össur Skarphéðinsson:

Virðulegi forseti. Ekkert mál hefur risið eins hátt í umræðu síðustu daga og heilbrigðismálin og staða þeirra hefur skapað verulegt óöryggi víða meðal þjóðarinnar. Þegar við sjáum hins vegar hér á ráðherrabekki er ekki hægt að finna að sami uggur ríki meðal ráðherra, þá er ekki hægt að finna að sömu tilfinningar ríki þar. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvar er hæstv. fjmrh.? Hvers vegna lætur hann hæstv. heilbrrh. sitja einan uppi með þessa stöðu?

Virðulegi forseti. Í síðustu viku hlustaði ég á íslenskan yfirlækni tala af 25 ára reynslu um sænska heilbrigðiskerfið. Boðskaður hans var þessi: Það þarf að ríkja traust milli þeirra sem stýra heilbrigðismálum og þeirra sem vinna innan heilbrigðiskerfisins. Stjórnmálamennirnir verða að þora að taka pólitíska ábyrgð en kasta ekki vandanum yfir á starfsmenn kerfisins.

En ríkisstjórn Íslands fælist hins vegar pólitíska ábyrgð í heilbrigðismálunum. Það sést best á þeirri stöðu sem nú er komin upp á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi. Þar er vanda, sem var löngu fyrirsjáanlegur, fleygt af afli í fang stjórnenda og starfsmanna. Ríkisstjórnin, eins og áður hefur komið fram í þessari umræðu, hefur aldrei tekið sér það verk fyrir hendur að skilgreina og ákveða nákvæmlega hvaða verkefnum spítalinn skuli sinna og hvaða verkefnum skuli sinnt af öðrum. Stjórnendur, sem hafa að mörgu leyti staðið sig afburða vel á síðustu missirum, eru látnir taka þessar pólitísku ákvarðanir. Starfsmenn spítalans, sem hafa unnið frábært starf, eru látnir taka afleiðingunum.

Virðulegi forseti. Þetta er það sem er kallað kreppustjórnun sem er ekkert annað en afleiðing pólitísks stefnuleysis. Það er fyrst núna, röskum átta árum eftir að Framsfl. tók við stöðu heilbrigðismála og eftir að núv. ríkisstjórn tók við völdum, að sett er niður nefnd til þess að skilgreina verkefni Landspítalans, FSA og afmarka það hlutverk sem sjálfstætt starfandi læknar eiga að gegna.

Auðvitað er það þannig, eins og hér hefur komið fram, að verk nefndarinnar hlýtur að vera alger forsenda þess að ljóst sé hvaða verkefni eiga að vera í höndum spítalans og hvaða verkefni á að vinna annars staðar. Þess vegna tekur Samf. að sjálfsögðu undir þá kröfu sem hefur komið fram að ákvörðunum um niðurskurð verði frestað þangað til niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir. Það er alrangt sem hæstv. ráðherra segir, að það væri pólitískt ábyrgðarleysi að gera það. Það væri einmitt dæmi um skilvirk vinnubrögð og pólitíska ábyrgð að bíða eftir því að nefndin skili af sér --- eða er hún bara upp á punt, virðulegi forseti?

Dæmin um brotalamir í heilbrigðiskerfinu eru mörg þó að kerfið sé að mörgu leyti gott. Nýlegt dæmi er lýsing hæstv. heilbrrh. á stöðunni í lyfjamálum. Milli áranna 1999 og 2002 jókst lyfjakostnaður um 49%. Hann jókst langminnst á Heilbrigðisstofnun Akraness, eða um 13%, en um 102% þar sem hann jókst mest.

Formaður lyfjahóps gaf þá skýringu að árangur Skagamanna fælist í virku lyfjastarfi og faglegu eftirliti. Og nú kemur lyfjahópur ráðherra með 25 tillögur að úrbótum. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað hefði mátt spara marga milljarða ef hæstv. ráðherra hefði farið að viðvörunarorðum stjórnarandstöðunnar og hrint verkefni af þessu tagi af stað fyrir átta árum?

Menn hafa drepið hér á heilsugæslu. Hún er undirstaða heilbrigðiskerfisins. Fjárfesting í henni skilar sér margfalt í sparnaði í efri lögum kerfisins. En fjöldi landsmanna er án heimilislæknis. Það er heilt hverfi í Reykjavík þar sem er engin heilsugæslustöð þrátt fyrir loforð sem svikin hafa verið árum saman. Í Hafnarfirði eru fimm þúsund manns án heilsugæslu. Þeir sem ekki hafa greiðan aðgang að heilsugæslu leita í dýrari úrræði, það vita menn. Kostnaðurinn af þessari skammsýni gagnvart heilsugæslunni hleypur þess vegna á milljörðum árlega.

[14:15]

Það er líka sorglegt, virðulegi forseti, að í dag er að koma fram vísir að tvöföldu kerfi í landinu. Ég vil nefna þrennt sérstaklega.

Í fyrsta lagi þær þúsundir sem hafa ekki greiðan aðgang að heilsugæslu og neyðast þess vegna til að borga miklu meira fyrir þá þjónustu sem þeir sækja.

Í öðru lagi lýsti fyrrverandi aðstoðarmaður hæstv. heilbrrh., Elsa Friðfinnsdóttir, því ítarlega í blaðagrein hvernig tvöfalt kerfi er að koma upp varðandi sérfræðiþjónustu þar sem þeir efnameiri hafa meiri völ á þjónustu en hinir.

Í þriðja lagi fjölgar þeim Íslendingum sem veigra sér við að leita aðstoðar vegna fjárskorts. Við þetta er ekki hægt að búa. Ef þetta er ekki dæmi um tvöfalt kerfi heiti ég ekki Össur.

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan þarf líka að tala í lausnum, við getum ekki bara bent á það sem aflaga fer. Samf. hefur bent á að það er ákaflega brýnt að skoða leiðir til að byggja upp hjúkrunarheimili. Vandi allt of margra eldri borgara er leystur á hátæknisjúkrahúsum sem er margfalt dýrara. Við viljum skoða breytingar á stjórnkerfi til að efla mannúð kerfisins og til að bæta nýtni þess.

Dæmi: Í hvert skipti sem er skorið niður velkjast geðfatlaðir milli allt að fimm aðila. Málefni þeirra verða að vera á einni hendi. Samf. vill líka auka nýtni og mannúð með því að efla heimaþjónustu, heimahjúkrun, uppbyggingu göngudeilda og koma upp öflugum sjúkrahótelum. Samhliða slíkum aðgerðum var hægt að fækka sjúkrahúsrýmum í Svíþjóð um tugi prósenta.

Virðulegi forseti. Samf. hefur sett sér fjórar forsendur fyrir breytingum í heilbrigðiskerfinu. Í fyrsta lagi að aðgengi allra landsmanna sé óháð efnahag, í öðru lagi að þjónusta við sjúklinga fari batanandi, í þriðja lagi að beinn kostnaður sjúklinga aukist ekki og í fjórða lagi að fjármunir hins opinbera séu nýttir eins vel og kostur er.

Markmið okkar í hnotskurn eru að bæta heilbrigðisþjónustuna miðað við svipað hlutfall af landsframleiðslu og þar með að bæta nýtingu fjármagns, að fjárfesta í rannsóknum og þróun heilbrigðisgeirans og að tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustunni óháð efnahag.

Samf. hefur lýst sig reiðubúna til að taka þátt í því að endurbæta heilbrigðiskerfið með opnum huga, t.d. hvað varðar fjármögnunarleiðir og ólík rekstrarform. Á landsfundi sínum ákvað Samf. að loka ekki fyrir fram á þann möguleika að samhliða opinberum rekstri geti einkarekstur átt sér stað í kerfinu.

Auðvitað er einkarekstur ekkert töfraorð, einkarekstur leysir ekki allan vanda. (ÖJ: Hann er dýrari.) En það er ekki hægt að hafna honum fyrir fram, hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem einni af aðferðum kerfisins svo fremi það sé tryggt að hann skapi ekki tvöfalt kerfi, svo fremi það sé tryggt að allir hafi möguleika á fyrsta flokks þjónustu án tillits til efnahags, svo fremi það sé tryggt að hann lúti sömu kröfum og reglum og þær stofnanir sem eru reknar af opinberum aðilum. Ég segi það, virðulegi forseti, ekki síst við hv. þm. Ögmund Jónasson að rekstrarformið getur ekki verið aðalatriði svo fremi að markmiðinu um jafnrétti til heilsu sé náð.

Með leyfi virðulegs forseta vil ég rifja hér upp orð aðstoðarlandlæknis, Matthíasar Halldórssonar, sem sagði í erindi fyrir skömmu:

,,Heildarniðurstaða mín er því sú að leiða megi að því líkur að einkarekstur á ákveðnum þáttum heilbrigðisþjónustunnar og nýting á markaðslögmálum geti bætt þjónustuna og gert hana hagkvæmari. En til þess þurfum við að setja gagnsæja staðla í samvinnu beggja aðila, kaupanda og seljanda.``

Nú ætla ég ekki að ásaka hv. þm. Ögmund Jónasson um það að vera gamall kommúnisti en ég ætla að rifja upp orð gamals kommúnista sem einu sinni stýrði Kína, Dengs Xiaopings: ,,Það skiptir ekki máli hvernig kötturinn er á litinn svo fremi sem hann veiðir mýs.``

Ef það er hægt að veiða mýs með mismunandi rekstrarformum gera menn það.

Virðulegi forseti. Við jafnaðarmenn viljum áframhaldandi þjóðarsátt um heilbrigðismál og við bjóðum fram starfskrafta okkar í þeim efnum. Mér finnst hins vegar að þessa dagana kjósi ríkisstjórnin fremur að fara um heilbrigðiskerfið eins og fílar í glervörubúð og hún leggur í svo hraðan niðurskurð að hann er ekki gerlegur á einu ári án þess að skerða þjónustu og skapa óöryggi fyrir íbúa landsins. Það á ekki að láta starfsmenn og sjúklinga gjalda fyrir margra ára stefnu- og fyrirhyggjuleysi stjórnmálamanna.

Hér á hinu háa Alþingi þurfum við að ná sátt eins og ríkir meðal þjóðarinnar um það grundvallaratriði að aðgengi að heilbrigðiskerfinu verði alltaf óháð efnahag.