Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 14:21:20 (3646)

2004-01-29 14:21:20# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[14:21]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég ætla nú að byrja á því að taka það fram að mér finnst það heldur ósmekklegt af formanni Samf. að leggja að jöfnu menn og mýs, mýs og sjúklinga, en á þeim orðum verður hann að bera ábyrgð sjálfur.

En mig langar að byrja á því að leiðrétta þann misskilning að það sé verið að skera niður fjárveitingar til Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Fjárveitingar til Landspítalans eru ákvarðaðar í fjárlögum og framlög ríkisins til reksturs sjúkrahússins samkvæmt þeim eru 24,8 milljarðar kr. Stjórn sjúkrahússins hafði hins vegar áætlað að óbreyttur rekstur mundi kosta 1,4 milljörðum meira, en henni er nú gert að gera þær breytingar á rekstraráformum sínum að kostnaðurinn nemi fjárlagatölunni, 24,8 milljörðum kr.

Markmiðið með sameiningu sjúkrahúsanna var að samræma og samþjappa sjúkrahúsþjónustu og reka hagkvæmari einingar en áður hafði verið gert. Það er einmitt það sem verið er að gera núna, að draga reksturinn saman, þjappa honum saman til að ná út hagkvæmari einingum.

Landspítalinn er rekinn á 19 stöðum, vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið, og bráðamóttökur fyrir sjúklinga eru reknar á fimm stöðum. Í greinargerð stjórnar læknaráðsins frá því í desember er m.a. bent á óhagræðið af þessu. Sama á við um rannsóknastofur í blóðmeinafræði, meinaefnafræði og myndgreiningu sem allar eru reknar á tveimur stöðum en ekki á einum stað. Sameining eldhúsanna er annað mál og til viðbótar má nefna dauðhreinsunardeildir sem eru reknar á þremur stöðum.

Ef það var ekki eitt meginmarkmiðið með sameiningu sjúkrahúsanna að stækka þessar rekstrareiningar og fækka þeim til að ná fram aukinni rekstrarhagkvæmni, m.a. með lækkun launakostnaðar og fækkun starfsmanna, veit ég ekki hver tilgangurinn með sameiningunni var. Þessar aðgerðir eru auðvitað bæði erfiðar og þær eru sársaukafullar. En það segir sig sjálft að aðgerðir sem draga úr launakostnaði ná hvergi sparnaði að heitið geti því að 70% af rekstrarkostnaði sjúkrahússins eru laun og starfsmannatengdur kostnaður, samtals um 18,2 milljarðar kr.

Þó að starfsmenn sjúkrahússins telji nær 5 þús. manns munar auðvitað geysilega um þessi 200 ársverk sem verið er að fækka um núna. Þeim verður bæði náð með uppsögnum og samdrætti í vöktum og yfirvinnu en það þýðir líka að sjálfsögðu kjaraskerðingu sem mun koma við meira og minna 550 starfsmenn.

Í umræðu um aðhaldsgerðir á Landspítalanum verður að gæta þess að tala ekki um sjúkrahúsið Landspítala -- háskólasjúkrahús sem eitthvert eyland í heilbrigðisþjónustunni. Meginstoðir heilbrigðisþjónustu okkar eru þrjár:

Landspítali -- háskólasjúkrahús, endastöðin í heilbrigðiskerfinu sem veitir bráðaþjónustu sem engum getur vísað frá og tekur við öllum erfiðustu sjúkdóms- og slysatilvikunum og annast auk þess menntun heilbrigðisstétta.

Önnur stoðin er heilsugæslan sem á að geta sinnt allt að 80--90% af heilbrigðisþjónustuþörf landsmanna.

Þriðja stoðin er sérfræðiþjónusta utan sjúkrahúsa sem aðallega er veitt af sjálfstætt starfandi læknum.

Þessar þrjár stoðir hljótum við í allri umræðu alltaf að meta og skoða heildstætt og leitast við að tryggja að hver og ein þeirra geti sinnt sínu geysimikilvæga hlutverki og ávallt með gæði og hagkvæmni þjónustunnar að leiðarljósi, byggt á kostnaðargreiningu.

Á sama tíma og Landspítalanum er gert að gæta aðhalds í rekstri, herða á sameiningarferlin, eins og einhver kallaði það, er verið að gera sjúkrahúsinu það betur kleift með því að efla bæði þjónustu heilsugæslunnar hér á höfuðborgarsvæðinu og fjölga hjúkrunarrýmum. Þessa sér mjög glöggt stað í fjárlögunum og þar sjáum við líka áherslur þessarar ríkisstjórnar. Framlög til byggingar og reksturs nýrra hjúkrunarrýma eru aukin um nær milljarð króna og framlög til eflingar heilsugæslunnar um hálfan milljarð.

Í þessum áherslum sést stefna okkar framsóknarmanna í hnotskurn, það er að standa vörð um þessar þrjár meginstoðir heilbrigðiskerfisins, sem ég hef þegar gert grein fyrir, og tryggja uppbyggingu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og nægjanlegan fjölda hjúkrunarrýma, m.a. þannig að Landspítali -- háskólasjúkrahús geti sinnt meginhlutverki sínu sem bráðasjúkrahús og sem kennslustofnun.

Mér hefur oft og tíðum fundist góður taktur á milli stefnu okkar framsóknarmanna í heilbrigðismálum og Samf., stærsta stjórnarandstöðuflokksins hér á Alþingi. Í ræðu formanns þess flokks á landsfundi, svokallaðri hátíðarræðu, rétt fyrir þremur mánuðum, sýndi þetta sig að vissu leyti þó að hann missti taktinn í öðru. Formaðurinn sagði þar að Samf. þyrfti með opnum huga að skoða breytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu. Þau orð var ekki hægt að skilja öðruvísi en sem breytta stefnu Samf. um að hætta að láta pólitískan rétttrúnað og heiti rekstrarforma ráða för, og er ekki nema gott um það að segja, en jafnframt var ekki hægt að skilja þau orð öðruvísi en sem yfirlýsingu um stuðning við þá grónu stefnu okkar framsóknarmanna að tryggja jafnan aðgang allra að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu, en láta fordómalaust mat á gæðum þjónustunnar og hagkvæmni ráða vali á því rekstrarformi sem ákveðið er hverju sinni.

Á hinn bóginn kom mér á óvart og eflaust mörgum öðrum sú yfirlýsing formanns Samf. að fjárskortur væri ekki vandamál í heilbrigðisþjónustu, ekki síst í ljósi þess að margir hv. þm. flokksins hafa ítrekað, bæði fyrir og eftir landsfundinn, ekki bara reynt að leiðrétta og túlka á annan hátt orð formannsins heldur líka talað um fjárvöntun á ákveðnum sviðum.

Þá spyr ég: Ef heilbrigðisþjónustuna í heildina skortir ekki fé, hvar á þá að færa á milli? Af hverjum á að að taka núna? Eigum við að fara að taka frá heilsugæslunni eða eigum við að fara að taka frá öldrunarþjónustunni? Og menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir í því sem þeir segja.

Raunveruleikinn sem við horfumst í augu við er sá að við þurfum að auka fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar til að ljúka uppbyggingu heilsugæslunnar hér á höfuðborgarsvæðinu, til að geta mætt þörfum hratt vaxandi fjölda aldraðra í samfélaginu, bæði fyrir hjúkrunarrými og aðra öldrunarþjónustu, og síðast en ekki síst þurfum við að gera Landspítala -- háskólasjúkrahúsi kleift að fullnýta sameiningu sjúkrahúsanna og ná fram þeirri hagræðingu sem við stefndum að í upphafi.

Með eflingu heilsugæslunnar og fjölgun hjúkrunarrýma léttum við álagi af Landspítalnum og styrkjum þar með getu sjúkrahússins til að standa vörð um meginhlutverk sitt sem bráðasjúkrahúss og sem kennslustofnun heilbrigðisstétta. Þetta samhengi hlutanna verður að hafa í huga í allri umræðu um heilbrigðismál.

Ég nefndi áðan og vísaði bæði í greinargerð stjórnar læknaráðs Landspítala -- háskólasjúkrahúss frá því í desember og líka til greinargerðar framkvæmdastjórnar Landspítalans og nefndi dæmi um deildir og rekstur sjúkrahússins sem eru reknar á mörgum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, bráðamóttökur, dauðhreinsideildir og aðra starfsemi. Mergurinn málsins er sá að þessi dæmi sýna það einna gleggst að við þurfum aukið fjármagn í stofnkostnað til að ná fram til fulls hagræðingunni af sameiningu sjúkrahúsanna. Þess vegna þurfum við nú, sem ávallt, að gæta fyllsta aðhalds í rekstrinum.

Herra forseti. Á fundi heilbr.- og trn. í morgun voru fulltrúar framkvæmdastjórnar Landspítala spurðir hvort aðhaldsgerðir stjórnar sjúkrahússins ógnuðu öryggi sjúklinga. Það var sérstaklega spurt um bráðamóttöku brjóstverkja við Hringbraut. Þeir upplýstu m.a. að fyrst í desembermánuði sl. var byrjað að hjartaþræða um helgar og því verði haldið áfram. Það verður haldið áfram að hjartaþræða um helgar. Það eina sem ætlunin er að breyta er að móttaka sjúklinga verður í Fossvogi og eftir atvikum verða þeir sjúklingar sem þurfa hjartaþræðingu fluttir á Hringbrautina og bakvaktin, sem annast hjartaþræðinguna áfram sem hingað til, verður kölluð út þegar það á við. Á sama tíma og sjúklingar eru fluttir á milli er hægt að kalla út bakvaktina eins og hefur verið gert síðan um helgar í desember.

Þjónusta neyðarmóttöku vegna nauðgana verður heldur ekki skert og hún verður ekki flutt. Það eina sem lagt verður niður til viðbótar bakvakt félagsráðgjafa, sem enda getur illa sinnt hlutverki sínu nema í dagvinnu, er sérstök vakt hjúkrunarfræðings að deginum til í miðri viku, ekki á öðrum tímum, og hafa fjölmargir starfsmenn slysadeildarinnar á liðnum árum öðlast þekkingu og reynslu á þessu sérsviði en eru eftir sem áður að starfa að þessum málum og þeir munu halda því áfram. Það á ekki að skerða starfsemi skurðdeilda og það verður haldið áfram að stytta biðlistana.