Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 14:47:56 (3650)

2004-01-29 14:47:56# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), GÖg
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það eru allir sammála um að Landspítali -- háskólasjúkrahús sé hátæknisjúkrahús og bráðasjúkrahús. Það er ekki einfalt mál fyrir sjúkrastofnun að skera niður um 1,4 milljarða á tveimur árum. Nú er verið að skera niður um helming af þessari fjárhæð. Þetta er flókið, sérstaklega í ljósi þess að stefnumörkunin er ekki tilbúin.

Mikið hefur verið rætt um hvort hægt hefði verið að bíða með ýmsar tillögur þar til skýrsla nefndarinnar sem á að skoða og skilgreina hlutverk stóru sjúkrahúsanna hefur lokið vinnu sinni. En það var valið að gera það ekki. Ég er hins vegar ein af þeim sem segja að það hefði átt að bíða með sumar tillögurnar þar til skýrslan væri tilbúin.

Kostnaðargreining á þjónustu er langt komin og erfitt getur verið að snúa til baka með sumar aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í. Það þarf líka að skoða tengslin við nágrannasjúkrahúsin í þessu samhengi og hlutverk þeirra.

Mér segir svo hugur að þegar umræða og atkvæðagreiðsla var um fjárlögin hefðu þingmenn kannski greitt atkvæði á annan veg ef umræður hefðu snúist um neyðarmóttöku, Arnarholt, krabbameinssjúka, endurhæfingu, Teig, stoðþjónustu o.s.frv. Umræðan er komin á þá braut nú og snýst orðið um það hvort spítalinn sé kominn að öryggismörkum. Margir sérfræðingar vilja meina svo, ekki síst vegna áætlunar um lokun bráðamóttöku fyrir hjartasjúklinga um helgar en sennilega verður horfið frá því þó að Landspítalinn sé bráðasjúkrahús, en hv. þm. Jónína Bjartmarz upplýsti umræðu úr heilbrn. áðan í sínu máli.

Það var hiti í umræðum vegna skerðingar á neyðarmóttöku. Fyrri hugmyndin var að setja hana á kvennadeild. Sem betur fer var frá því horfið enda umræða sem farið var í gegnum við upphaf og skipulag neyðarmóttökunnar. Þetta tvennt fór á engan hátt saman og nú verður neyðarmóttakan á sínum stað og ber að fagna því. Númer eitt, tvö og þrjú er að þessi þjónusta verði til staðar því að hún er gríðarlega mikilvæg og greinilegt að búið er að sammælast um það.

Þegar niðurskurðurinn er skoðaður heildstætt kemur í ljós að það eru tvö svið sem verða sérstaklega illa úti, geðsvið og endurhæfing. Af þeim 200 ársverkum sem eru skorin niður eru 75 á þessu sviði. Það er verulegt áhyggjuefni. Eru geðsjúkdómar annars flokks sjúkdómar og af hverju er það? Hafa þeir sem glíma við erfiða geðsjúkdóma verri málsvara, eru þeir ekki nógu hávaðasamir?

Ef einstakar tillögur eru skoðaðar þá er Arnarholt efst á blaði. Arnarholt er búið að vera heimili fólks í fjölda ára, kannski vegna þess að engin úrræði hafi verið til fyrir þá sem þar búa. Það voru sumir hverjir fluttir frá Kleppi, á þá að flytja þá þangað aftur? Það gengur auðvitað ekki. Það viðurkenna allir að þetta er eitt af viðkvæmu málunum í sparnaðaraðgerðunum og við erum að tala um afar viðkvæman hóp sem verður að tryggja öruggan samastað. Þetta þarf að leysa því að óöryggi er eitt af því versta sem kemur fyrir þennan hóp sem þarna dvelur.

Virðulegur forseti. Það hefur lengi loðað við að skera niður á geðsviði, samkvæmt upplýsingum Geðhjálpar, og það hefur fækkað um 110 rúm frá 1996. Ekki vegna þess að geðsjúkdómum hafi fækkað, ekki held ég það.

Hvað með Teig? Það er hluti deildar út frá geðdeild sem hefur verið skorið af með manni og mús og ég held að enginn hafi tekið eftir því.

Endurhæfingardeildin í Kópavogi fyrir fjölfatlaða, er auðvitað mál sem stendur í fólki. Hvar eiga þeir sem þar eru að fá endurhæfingu, hvaða úrræði á að finna vegna þeirra sem þar eru? Þau mál eru í skoðun hjá stjórn Ríkisspítalanna.

Hvað með alla stoðþjónustu? Þjónustu sem hefur gert það að verkum að hægt er að stytta legudaga til að minnka kostnað, til að styðja fólk aftur út í lífið, styðja aðstandendur, foreldra, vera brú milli kerfa, til að fá aðra þjónustu? Þannig mætti lengi telja. Þetta er allt að hverfa.

Stefnumörkun verður að flýta, skilgreina, færa starfsemi milli kerfa og tryggja þjónustu.

Herra forseti. Fólkið í landinu velkist ekki í vafa þegar það er spurt hvernig eigi að forgangsraða, í hvað skatttekjurnar eiga að fara. Þar eru heilbrigðismál í fyrsta sæti. Við eigum að taka mark á því og setja þessi mál í það sæti og axla ábyrgðina sem því fylgir. Hún er að sjálfsögðu mikil, við þurfum að skoða heildstætt heilsugæslusjúkrahús sérfræðinga. Verkefnið er ekki einfalt og ábyrgðin er mikil.