Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 14:52:43 (3651)

2004-01-29 14:52:43# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), DJ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Dagný Jónsdóttir:

Herra forseti. Pólitískir andstæðingar okkar hafa mjög svo haldið því á lofti undanfarið að stefnuleysi ríki í heilbrigðismálum, að hér ríki stjórnleysi og að kerfið sé í lamasessi. Að halda því fram er fásinna.

Er ekki skýr stefna að efla heilsugæsluna, beina fólki frekar þangað en inn á rándýr hátæknisjúkrahús? Einnig á að fjölga hjúkrunarrýmum þannig að aldraðir fái inni á hjúkrunarheimilum í stað þess að liggja á sjúkrahúsum. Þetta er allt spurning um forgangsröðun og ég tel að hæstv. ráðherra og stjórnvöld séu að forgangsraða rétt.

Herra forseti. Svo virðist sem einhverjir telji að einfalt sé að draga úr háskólaþætti spítalastarfsins. Það er misskilningur, því að með þeirri ákvörðun væri komið í veg fyrir framþróun starfanna og þjónustan mundi fljótt staðna. Háskólaþátturinn er dýr, við þurfum að vita betur hversu dýr hann er. En það er fásinna að tala eins og hann sé léttvægur þáttur í starfseminni.

Landspítali -- háskólasjúkrahús og háskólinn hafa leitast við á undanförnum árum að skilgreina betur hvernig samstarfi þessara stofnana skuli háttað. Er það gert með það að leiðarsljósi að samþætting klínískra starfa og háskólastarf efli báða þættina. Ég tel mikilvægt að halda áfram á þessari braut og legg kapp á að verja starfsemi tengda kennslu, rannsóknum og vísindum á spítalanum eins og mögulegt er.

Þessir þættir verða þó að taka þátt í hagræðingunni og sparnaðarkrafan nær líka til þeirra. Mikilvægt er að þessi hagræðing takist í sátt því að einnig hér þarf að forðast að skerða nauðsynlega starfsemi. Til framtíðar má velta því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að þessum hluta starfsemi Landspítala -- háskólasjúkrahúss skuli vera tryggðir fjármunir í gegnum heilbr.- og trmrn.