Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 14:55:00 (3652)

2004-01-29 14:55:00# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[14:55]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Frjálsl. vill öflugt velferðar- og heilbrigðiskerfi sem allir landsmenn eiga jafnan aðgang að. Það er einkenni ríkra þjóða að þær hafa efni á því að verja hærra hlutfalli af sinni landsframleiðslu til heilbrigðisþjónustu. Á tímum efnahagslegrar velmegunar ætti að vera hægt að styrkja og bæta heilbrigðisþjónustu í stað þess að skera hana niður eins og stjórnvöld vilja gera nú.

Eru þetta sömu herrar og boðuðu hér brosandi fyrir síðustu kosningar ,,Velferð fyrir alla``? Eru þetta sömu herrar og birtu loforð um að tryggja öllum aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu og eyða biðlistum?

Við höfum alla burði til að vera í fremstu röð í að lækna sjúka þegar vel árar. Það er ekki boðlegt að ræða um það í fullri alvöru að skerða starfshlutfall um 600 starfsmanna Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Það er einnig óhuggulegt að ræða um það í fullri alvöru að skerða bráðaþjónustu þar sem um líf og dauða landsmanna er að tefla.

Herra forseti. Það er athyglisvert að verða vitni að sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þær virðast alltaf lenda á málaflokkum sem heyra undir ráðherra Framsfl. Það á sérstaklega við um einn ráðherrann, sem virðist vera laminn áfram í mjög óvinsælar aðgerðir, en það er hæstv. heilbrrh., Jón Kristjánsson. Núna á hann að skera niður á einu bretti 700 millj. kr. á Landspítalanum, en í haust sem leið var hann settur í það ömurlega hlutskipti að svíkja handsalaðan samning við öryrkja sem hann hafði skreytt sig með í kosningabaráttunni.

Auðvitað ber hæstv. heilbrrh. ábyrgð á ástandinu með stefnuleysi og ráðaleysi sínu og Framsfl. allur vegna þess að hann hefur ráðið þessu ráðuneyti í talsverðan tíma.

Til að gæta allrar sanngirni er það ekki einhlítt að ráðuneyti framsóknarmanna þurfi að skera verulega niður. Utanríkisráðuneyti formanns flokksins bólgnar út og að öllum líkindum mun sú þróun halda áfram vegna taumlauss metnaðar til þess að eiga fulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það eru nægir peningar þar.

Svo má minna á að varaformaður flokksins fékk sérstaka heimild til þess að greiða a.m.k. 170 millj. kr. til þess að loka minni sláturhúsum, allt gert í nafni einhverrar öfugsnúinnar ríkishagræðingar. Eru þetta merki um stefnu Framsfl., ,,Fólk í fyrirrúmi``?

Hvernig ætli standi á fjárhagsvanda Landspítalans? Ég er ekki sammála helsta talsmanni Sjálfstfl. í velferðarmálum, hv. þm. Pétri H. Blöndal, um að það megi einna helst rekja fjárhagsvandann til dýrrar og slakrar stjórnunar á Landspítalanum. Ég tel að fjárhagsvandann megi fyrst og fremst rekja til aukins launakostnaðar og stefnuleysis yfirvalda.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að laun á Landspítalanum hafa hækkað umfram önnur laun í landinu. Auðvitað munar um þessar hækkanir sérstaklega í ljósi þess, eins og fram hefur komið í umræðunni, að um 70% af kostnaði spítalanna er launakostnaður.

Hver ber ábyrgð á þessum launahækkunum? Hver samdi um þessar launahækkanir? Hæstv. fjmrh., Geir H. Haarde, ber mesta ábyrgð á því. Í raun ber hæstv. heillbrrh., sem situr uppi með skömmina af niðurskurðinum, minni ábyrgð á ástandinu. Það er óneitanlega óábyrgt hjá hæstv. fjmrh. að stofna til mikilla útgjalda hjá sjúkrahúsunum án þess að gera ráð fyrir auknum fjárframlögum til þeirra.

Herra forseti. Við skipulagningu heilbrigðiskerfisins þarf einkum að huga að þremur þáttum. Í fyrsta lagi að þeim sem nota þjónustuna, sjúklingunum, starfsfólki heilbrigðiskerfisins og skattgreiðendum. Við í Frjálsl. leggjumst alls ekki gegn því að það sé gætt ýtrustu hagsýni og sparnaðar í heilbrigðiskerfinu. Það má eflaust spara þar sem víðar og ná fram hagræðingu og jafnvel betri stjórnun, eins og áðurnefndur sérfræðingur í velferðarmálum hefur bent á. Fulltrúi Frjálsl. í stjórn Landspítalans mun styðja allar skynsamlegar sparnaðartillögur og leita leiða með starfsfólki að hagkvæmum rekstri.

Við í Frjálsl. erum hins vegar alfarið á móti áhlaupi ríkisstjórnarinnar á Landspítalann. Krafan um þennan gríðarmikla sparnað á einu bretti er ekkert annað en aðför að Landspítalanum sem ógnar atvinnuöryggi starfsfólks og skerðir verulega þjónustu við sjúklinga. Við teljum mun árangursríkara fyrir kerfið að fá fólk í lið með sér, fá starfsfólk Landspítalans í lið með stjórnvöldum að vinna sameiginlega að sparnaðaraðgerðum sem skerða ekki þá þjónustu sem veitt er. En í stað þess að gera það er þessum aðgerðum nánast teflt gegn starfsfólkinu.

Að lokum vil ég nefna vegna orða hæstv. heilbrrh. um að heilbrigðisþjónustan sé góð og að hæfileikaríkt starfsfólk starfi við heilbrigðisþjónustuna. Ég er sammála hæstv. ráðherra. Ég vil spyrja ráðherra hvort það sé einhver þörf á að breyta því. Ég segi nei. En nú virðast breyttir tímar hjá Framsfl. Það er ekki lengur fólk í fyrirrúmi. Nú er það utanríkisþjónustan.