Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 15:06:48 (3654)

2004-01-29 15:06:48# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er sammála því að íslenska heilbrigðiskerfið sé í grunninn mjög gott. Ég get gert mörg af orðum hæstv. heilbrrh. Jóns Kristjánssonar í upphafi þessarar umræðu um það atriði að mínum. En hvað hefur mönnum þótt gott við íslenska heilbrigðiskerfið? Jú, sú staðreynd að þetta er í grunninn norrænt samábyrgt opinbert heilbrigðiskerfi. Það hefur staðið öllum opið --- hefur staðið, segi ég --- án tillits til efnahags. Hér hafa menn ekki þurft að kaupa sér tryggingar. Menn hafa ekki þurft að vera auðmenn til þess að fá hér fyrsta flokks þjónustu. Það er einmitt þetta eðli íslenska heilbrigðiskerfisins sem nú er ógnað og markvisst grafið undan því af ýmsum öflum, því miður. Endalaust tal um botnlausa hít, um stjórnlausan kostnað og ósanngjarnan samanburð við heilbrigðisútgjöld annarra þjóða, hvaða tilgangi þjónar það öðrum en þeim að sannfæra þjóðina um að við séum með of dýrt kerfi og því verði að breyta?

Þetta heyrðist í ræðuhöldum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem fór mikinn með bráðabirgðatölur frá OECD og telur samkvæmt þeim að útgjöldin séu komin upp í 9,8% af vergri landsframleiðslu. Ég segi bara: Hvað með það? Hvað með það þó Ísland sé þarna með fjórða hæsta hlutfallið? Hvað með það þó að Ísland sé við hliðina á löndum eins og Kanada, Hollandi, Frakklandi, Ástralíu, Danmörku, Svíþjóð og öðrum slíkum, þegar kemur að útgjöldum til heilbrigðismála, heildarútgjöldum, bæði því sem hið opinbera greiðir og því sem sjúklingarnir greiða? Ekki nokkur skapaður hlutur. Þar viljum við vera.

Að tala um að við séum ung þjóð segir ekki nema hálfa sögu. Við erum líka fámenn þjóð í stóru landi. Við höfum byggt hér upp fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, tekið sérhæfðar aðgerðir inn í landið á undanförnum árum o.s.frv. Verðum við ekki að sætta okkur við það? Er nokkuð nema eðlilegt að útgjöldin séu hér, sem hlutfall af þjóðartekjum, á svipuðu róli og í löndum í kringum okkur, löndum með sambærileg lífskjör sem við viljum gjarnan bera okkur saman við?

Það er rangt og kannski mesta blekkingin af þessu öllu að þau útgjöld hafi aukist stjórnlaust. Ég mótmæli tali af því tagi, hvort sem það kemur frá formanni Samf. á landsfundi þess flokks, hér í ræðustóli áðan þegar vitnað er í Deng Xiaoping, talað um mislita ketti á músaveiðum, eða þó það komi frá varaformanni fjárln. Það er ekki rétt að útgjöldin séu að þessu leyti á nokkurn hátt óeðlileg á Íslandi miðað við þær kröfur sem við gerum til þessarar þjónustu og það hversu góð hún er í aðalatriðum.

Það sem er mikið umhugsunarefni, herra forseti, er harkan sem sýnd er af hálfu stjórnarflokkanna í garð heilbrigðiskerfisins og heilbrigðisstéttanna. Sú óbilgirni og sú harka sem hefur verið sýnd í málinu núna undanfarnar vikur, að skella allri skuldinni á stjórnendur í heilbrigðiskerfinu og láta eins og ríkisstjórnin og meiri hluti hennar sé stikkfrí bara með því að loka fjárlögum sem bersýnilega eru óraunhæf miðað við þá þjónustu sem menn ætlast til að fá út úr þessu kerfi. Þar er pólitískt verið að undirbúa skattalækkunarleiðangur ríkisstjórnarinnar. Það á að ýta verkefnunum út úr hinu samábyrga heilbrigðiskerfi yfir á herðar notendanna, yfir í einkageirann. Þjóðhagslega verður enginn sparnaður af því. Hins vegar gröfum við undan því samábyrga velferðarkerfi sem við þykjumst öll standa vörð um og mærum í ræðum, og hæstv. heilbrrh. gerir hér eins og aðrir.

Góð heilsugæsla og gott heilbrigði er stór hluti af þeim nútímalífsgæðum sem við viljum búa okkur og þjóðinni. Þá eigum við líka að vera menn til að leggja þannig til málaflokksins að þetta gangi eftir.