Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 15:11:20 (3655)

2004-01-29 15:11:20# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Það má gera miklu betur í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Það er hins vegar ekki við starfsfólk heilbrigðiskerfisins að sakast heldur stjórnmálamennina sem setja kerfinu ramma og reglur.

Það er ljóst að hvorki heildarstefna né framtíðarsýn í heilbrigðismálum finnst meðal núverandi valdhafa. Einn daginn á að loka þessari deild en þann næsta er hætt við að loka henni. Stundum á að flytja þessa starfsemi og stundum ekki. Skipaðar eru nefndir sem fá síðan ekki að skila af sér áður en ráðist er í sársaukafullar aðgerðir sem snerta umfjöllunarefni nefndanna. Allar þessir fréttir bera vott um aðeins einn hlut: Algert stefnuleysi íslenskra stjórnvalda í heilbrigðismálum þjóðarinnar.

Svona haga sér aðeins óábyrg stjórnvöld sem vita ekki hvert þau vilja stefna. Óviss framtíð og handahófskenndur niðurskurður er raunveruleiki sem sitjandi ríkisstjórn býður bæði sjúklingum og starfsfólki upp á. Það blasir við að núgildandi kerfi með tímabundnum plástrum gengur engan veginn upp. Þegar plástrar eru rifnir of snemma af er oft hætta á sýkingu.

Hlutverk stjórnmálamanna er ekki einungis að útdeila skattpeningum, heldur ber okkur að móta skýra heildarsýn og þann ramma sem við viljum sjá velferðarkerfi okkar starfa innan.

Þrátt fyrir talsvert fjármagn í heilbrigðiskerfinu eru alvarlegar brotalamir á því. Málefni geðsjúkra eru í uppnámi ár eftir ár vegna fjárskorts. Biðtími eftir hjúkrunarrými er á annað ár. Fjárskortur er því sums staðar mikið vandamál. En meginvandi heilbrigðiskerfisins er þó sá að kerfið virkar ekki og dreifingu fjármagnsins er ábótavant. Þar hafa stjórnvöld brugðist og þetta hefur Samf. bent á. Vandi heilbrigðiskerfisins er ekki óyfirstíganlegur og Samf. er reiðubúin til að leggja sitt af mörkum til að leysa hann.

Fjölmarga hluti þarf að skoða þegar kemur að endurbótum. Það þarf að skilgreina ítarlega hvert hlutverk einstakra heilbrigðisstofnana á að vera. Úrræði á sviði heimahjúkrunar og göngudeilda ber að stórefla. Við eigum að setja okkur það pólitíska markmið að fólk geti forðast sjúkrahúsvist í lengstu lög.

Efling heilsugæslunnar og flutningur verkefna til sveitarfélaga eru einnig lausnir sem ber að skoða. Við þurfum jafnframt að fjölga hjúkrunarheimilum enda eru nú á annað hundrað einstaklinga á sjúkrahúsum sem eiga þar ekki heima.

Samf. mun beita sér fyrir nýjum leiðum og fjölbreyttari rekstrarformum, m.a. einkarekstri og þjónustusamningum. Þetta er ekki einkavæðing. Samf. er ekki að tala fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þar sem forgangur hinn efnuðu er tryggður, heldur hagkvæmum rekstri þar sem aðgangurinn að þjónustunni er óháður efnahag. (ÖJ: Hvað segir Verslunarráðið við því?)

Kerfi fastra fjárlaga fyrir heilbrigðisstofnanir þarf endurskoðunar við. Fjármagnið þarf að fylgja sjúklingnum í mun meiri mæli en gert er nú. Reyndar hefur núverandi ríkisstjórn svikið Háskóla Íslands um svipaða aðferðafræði þar sem fjármagn átti að fylgja nemendum en nú kemur í ljós að það vantar peninga fyrir mörg hundruð nemendur. Það er ljóst að lausnirnar eru þarna úti. Þetta er bara spurning um pólitískan kjark og áhuga á málaflokknum. Hvorugt hefur sitjandi ríkisstjórn haft undanfarinn áratug og skortir allt frumkvæði og hugrekki á því sviði. Aðgerðir undanfarinna daga á Landspítalanum staðfesta þetta. Máttlaus ræða hæstv. heilbrrh. staðfestir þetta einnig. Í henni var ekki bent á neinar lausnir og enga framtíðarsýn að finna.

Eitt er víst. Sitjandi stjórnarflokkar hafa haft næg tækifæri til að bregðast við þeim vandamálum sem plagað hafa íslenskt heilbrigðiskerfi í allt of langan tíma. Við þurfum heildarstefnu og við þurfum kjark.