Heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 15:15:39 (3656)

2004-01-29 15:15:39# 130. lþ. 53.1 fundur 267#B heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og vil koma að örfáum atriðum sem voru til umræðu hér á undan.

Hér hafa íslensk sjúkrahús verið borin saman við erlend. Við höfum rætt um það hver hlutur okkar sé í alþjóðlegum samanburði. Það er rétt að við erum í félagsskap þjóða varðandi framlög til heilbrigðismála sem við viljum vera í félagsskap með, það er alveg ljóst. Okkar framlög, ef ríkisútgjöldin eru tekin, eru 9,8% af vergri landsframleiðslu. Ef öll útgjöldin eru tekin föllum við niður í 9,2%. Þetta eru staðreyndir þess máls. Við viljum vera með þessum þjóðum, það er alveg rétt. Með Norðurlandaþjóðunum, með nágrannaþjóðum okkar.

Varðandi pólitíska ábyrgð og ábyrgð starfsmanna Landspítalans þá er alveg ljóst að ríkisstjórnin ber hina pólitísku ábyrgð, þess vegna erum við að tala um þessi mál hér. Þess vegna er ég sem heilbrigðisráðherra að tala um þessi mál við ykkur. Við þurfum ekkert að fara í grafgötur með það. En hins vegar verða starfsmenn spítalans að fá svigrúm til þess að fara yfir sín mál og fara yfir það hvar þessar aðgerðir koma minnst niður. Mér finnst það vera rétt en það hefur ekkert með hina pólitísku ábyrgð að gera. Ríkisstjórnin hlýtur að bera hana og ég sem heilbrigðisráðherra, ég skýt mér ekki undan því.

Komið hefur verið inn á ýmislegt í þessari umræðu varðandi spítalann. Það hefur verið komið inn á tölvuvæðingu spítalans og kostnaðargreiningu. Ég tel að taka þurfi á í þeim efnum, bæði í tölvuvæðingunni og kostnaðargreiningin er í gangi og henni mun ljúka á næsta ári og þá tel ég rétt að fara yfir fjármögnun spítalans og hvort við ættum að taka upp nýjar leiðir í henni.

Hér hefur heilbrigðisþjónustan verið rædd í víðu samhengi, hjúkrunarheimili, heilsugæsla og sérfræðiþjónusta. Þetta eru hinar stoðirnar í heilbrigðisþjónustunni. Það eru stórframkvæmdir í öllum þessum greinum. Við erum, eins og fram hefur komið, að taka í notkun ný hjúkrunarrými fyrir aldraða. Við erum að taka í notkun núna fyrir helgi meira að segja eitt hjúkrunarheimili og eina heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu þar sem skórinn hefur kreppt að í þeim málum. Þetta er ekki nóg en það hafa ekki um árabil verið jafnmiklar framkvæmdir í þeim málum.

Það er alveg rétt að við getum notað meiri peninga í þetta en mér heyrðist Samfylkingin halda því fram á aðalfundi sínum að ekki þyrfti meiri peninga. En hv. síðasti ræðumaður talaði um að það vantaði peninga í hinar ýmsu greinar. Hvers lags stefna er þetta? Er þetta einhver stefna? Menn eru að auglýsa eftir stefnu hér en ég sé ekki að þarna sé um neina stefnu að ræða.

Kynnt hefur verið átak varðandi það að setja skýrar reglur til að hamla gegn vaxandi lyfjakostnaði. Við kynntum á blaðamannafundi núna í vikunni álit starfshóps varðandi það sem var mjög ítarlegt. (Gripið fram í: Eftir átta ár.) Ég var ekki byrjaður fyrir átta árum, hv. þm., en þetta er áríðandi verkefni.

En þrátt fyrir þessar aðgerðir nú megum við ekki gleyma því að horfa til framtíðar um málefni spítalans. Spítalinn hefur náð miklum árangri í alþjóðlegum samanburði og samanburður við bresk sjúkrahús er að mörgu leyti villandi. Spítalinn hefur náð miklu betri árangri í mörgum greinum en bresk sjúkrahús og við skulum ekki láta þann samanburð rugla okkur.

Við þurfum að ljúka sameiningunni, spítalinn hefur orðið sterkari við sameininguna, faglega sterkari. Það er ekkert deilt um það. Og ég er sannfærður um að spítalinn mun njóta sameiningarinnar í framtíðinni í sparnaði. En aðalatriðið er að ljúka henni og undirbúa ákvarðanir um hvort eða hvenær við sameinum spítalann á einum stað. Það er nauðsynlegt og við megum ekki sleppa hendinni af því framtíðarmarkmiði.