Rannsókn flugslysa

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 15:28:14 (3658)

2004-01-29 15:28:14# 130. lþ. 53.6 fundur 451. mál: #A rannsókn flugslysa# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um rannsókn flugslysa, þingmál sem kom fram á síðasta þingi eins og fram kom hjá hæstv. samgrh. í ræðu hans hér á undan. Þegar málið kom fram sl. vetur gerði fulltrúi Samf. nokkrar athugasemdir sem hann taldi að þyrfti að skoða. Þetta er heildarendurskoðun á lögunum og ég tel að flest af því sem hér kemur fram sé til bóta eftir að hafa rennt yfir það.

En það eru nokkur atriði sem nefnd voru sl. vetur sem nefndin ætti að huga að, m.a. hvort ekki ætti að gera samning milli Flugmálastjórnar og rannsóknarnefndar flugslysa til að skilja þar á milli, að gerður yrði samningur um samskipti þessara tveggja aðila þannig að það væri alveg ljóst í hverju þau fælust.

Síðan hefði auðvitað mátt koma fram í greinargerðinni hvers vegna farið var í þessa ítarlegu vinnu því að við vitum auðvitað að farið var í þessa vinnu vegna mikillar umræðu um flugöryggismál vegna alvarlegs slyss sem varð við Reykjavík. Það hefði alveg mátt geta þess í greinargerðinni.

Annað sem við gerðum athugasemd við, og reyndar hefur verið gerð breyting í þá átt í frv., er varðandi meðferð og birtingu gagna. Bent var á að e.t.v. þyrfti að skoða 19. gr. Þar er búið að gera einhverjar breytingar en við þurfum kannski að íhuga það nánar í nefndinni. Ég á eftir að koma að þessari vinnu í nefndinni þannig að ég get líka komið því á framfæri þar. En það væri ástæða til að hafa samræmi milli þess hvaða gögn er heimilt að veita aðgang að og hvað ekki og horfa þá e.t.v. til annarra landa. Eins og frv. var birt í fyrra var að mörgu leyti þröngur aðgangur að ýmsu sem í öðrum löndum er greiður aðgangur að hvað varðar slíkar rannsóknir.

Hæstv. ráðherra er búinn að fara svona lauslega yfir málið og ég held að ég hafi litlu við það að bæta en mun auðvitað koma að þessu máli og spyrjast fyrir um ýmsa þætti, svo sem eins og 19. gr. Ég fagna því að farið hafi verið í þessa heildarendurskoðun og vonast til þess að málið verði afgreitt úr nefndinni að þessu sinni og þá með þeim breytingum sem nefndin telur ástæðu til að gera á því, ef það kemur fram í nefndinni að ástæða sé til þess.