Rannsókn flugslysa

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 15:32:01 (3659)

2004-01-29 15:32:01# 130. lþ. 53.6 fundur 451. mál: #A rannsókn flugslysa# frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir undirtektir við þetta frv. Ég er viss um að hv. samgn. mun fara rækilega yfir efnisatriði þess og kalla fyrir nefndina þá sem best þekkja og eru starfandi á þessum vettvangi þannig að sem traustust vinna geti komið út úr henni og sem mest sátt geti orðið um þá löggjöf sem hér er verið að vinna að.

Hv. þm. gat þess réttilega að það urðu nokkrar deilur um 19. gr., en sá starfshópur sem fékk frv. til meðferðar á síðasta ári fór mjög rækilega yfir það og það voru kallaðir fleiri að þeirri vinnu en áður höfðu verið, m.a. talsmenn flugmanna. Ég tel að um þessa niðurstöðu hafi orðið góð sátt og tekið hafi verið tillit til þeirra athugasemda sem komu m.a. fram í samgn. á síðasta þingi.

Ég vænti þess að afgreiðslu frv. megi hraða með eðlilegum hætti og afgreiða það frá þinginu áður en langt um líður. En ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnaleg viðbrögð.