Siglingastofnun Íslands

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 15:39:27 (3661)

2004-01-29 15:39:27# 130. lþ. 53.7 fundur 467. mál: #A Siglingastofnun Íslands# (siglingavernd, kóðar, gjaldtaka) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tel þetta frv. nauðsynlegt og að eðlilegt sé að fram komi þau atriði sem hér eru á ferðinni, a.m.k. tveir fyrstu liðirnir af þremur, og kannski sá þriðji líka en hef aðeins um hann fyrirvara. Það er eðlilegt að Siglingastofnun hafi það hlutverk sem talað er hér um í sambandi við siglingavernd við landið. Ég hef þó við það þann fyrirvara að mér hefur sýnst á þeim fréttum sem ég hef heyrt að það megi gera ráð fyrir gífurlegum kostnaði sem geti fylgt þegar þar að kemur vegna skelfingarinnar sem hefur gripið um sig eftir árásina á Ameríku 11. september fyrir rúmum tveimur árum. Ég hef verið að vona að menn gætu kannski dregið úr þeim viðbúnaði sem að hefur stefnt hvað þetta varðar. Það er sannarlega ástæða til að velta þessum hlutum dálítið betur fyrir sér, held ég, en hefur verið gert. Kannski höfum við enga leið til að komast undan hinu mikla eftirliti sem í stefnir vegna þeirra alþjóðasamninga sem við erum bundin í. Þeir munu kosta mikla fjármuni, örugglega, og spurningin er auðvitað hversu langt við þurfum að ganga hér á þessu eylandi og hvort það sé ástæða til þess að við göngum jafnlangt og þjóðir sem búa við aðrar aðstæður þar sem miklu fleira fólk býr og þar sem landið sjálft er ekki mikil vörn í raun og veru eða hafið í kringum landið eins og hér er.

Ég ætlaði fyrst og fremst að nefna þriðja liðinn, þann sem kallast að styrkja gjaldtökuheimildir Siglingastofnunar. Þar er á ferðinni örugglega tilraun til að sjá til þess að Siglingastofnun hafi allar hendur á því að innheimta næga fjármuni vegna eftirlits með skipum og skoðun á skipum og ég hef grun um að ástæðan fyrir því að þetta kemur núna svona fram sé sú að hæstv. ráðherra sé búinn að gera sér grein fyrir því að þær breytingar sem hann hefur ákveðið að hefja við eftirlit á skipum muni kosta verulega mikla peninga og að stofnunin þurfi á því að halda að verja sig gagnvart þeim sem munu gagnrýna þetta.

Það er búið að ákveða að einkavæða skoðun á skipum og eftirlit. Það virðist ætla að fara heldur óbjörgulega af stað. Siglingastofnun er t.d. búin að hækka gjaldskrá sína og gerði það núna á síðasta hausti, fyrir jólin, er nærri búin að tvöfalda gjaldskrá skoðunarmanna. Og til hvers? Örugglega vegna þess að einkaaðilar eiga að taka við skoðuninni á næstu dögum. Útseldur tími á skoðunarmanni kostaði um 2.300 kr. en búið er að hækka hann upp í 4.500 kr., á sama tíma og búið er að taka ákvörðun um að einkavæða þetta og að aðrir skulu skoða.

Ég gæti svo sem haft æðilangt mál um það hvers konar fyrirbrigði er komið þarna á stað. Þetta er algjörlega tvöfalt kerfi sem búið er að setja upp. Siglingastofnun á að halda áfram að fylgjast með nýbyggingu skipa en hún framselur þetta eftirlit til einkaaðila úti í bæ og gerir ekki kröfu um að krafist verði faglegrar þekkingar á þessu sviði. Það er t.d. gert ráð fyrir því að skipstjóralærðir menn, sem ég ber mikla virðingu fyrir, geti fylgst með smíði skipa þó að þeir hafi ekkert til þess lært, svo ég taki dæmi úr því sem stofnunin er búin að taka ákvörðun um að verði gert. Kerfið verður tvöfalt hvað varðar eftirlit með breytingum á skipum og það er alveg augljóst að það stefnir í mjög aukinn kostnað útgerðarmanna vegna þessa eftirlits.

Það er líka augljóst að það mun draga úr öryggi þessa eftirlits sem um er að ræða. Auðvitað hlýtur það að gerast þegar menn eru búnir að tvöfalda eftirlitið með þeim hætti sem þarna er gert og kippa úr sambandi því eftirliti sem var t.d. með nýsmíðum, að ekki sé gerð krafa um að það sé á höndum manna með faglega þekkingu á þessu sviði.

Ég gat ekki að mér gert vegna þessa tækifæris til viðbragða að bregðast við. Ég veit að hæstv. ráðherra er þegar farinn að fá viðbrögð við þessum breytingum sem hann hefur staðið fyrir að yrðu gerðar, og eru að fara að ríða yfir næstu dagana, og þess vegna varð ég að nefna þetta hér. Ég bara bið hæstv. ráðherra að velta þessu svolítið betur fyrir sér og láta skoða hvað er eiginlega á ferðinni. Það er t.d. þegar orðið ljóst að kostnaður bara þeirra sem gera út í nágrenni höfuðborgarsvæðisins margfaldast vegna þess kostnaðar sem búið er að ákveða að innheimta af stofnuninni sem mun halda áfram að innheimta helminginn af gjaldinu sem hún hafði áður þrátt fyrir að það eigi að fela öðrum eftirlitið og skoðunina. Síðan hefur hún eftirlit með þessum eftirlitsaðilum sem þarna eru á ferðinni og innheimtir sérreikning fyrir allt saman. Ég hef af þessu áhyggjur og mér finnst að hæstv. ráðherra hafi látið plata sig út í fen sem hann eigi örugglega eftir að engjast í í svolítinn tíma. Ég skora á hæstv. ráðherra að vera maður að meiri og stöðva þetta af þangað til hann er búinn að átta sig á því hvort þetta yfirleitt gangi. Hann mun auðvitað þurfa að svara fyrir þessa, sem ég tel, vitleysu sem þarna er á ferðinni.

Það þarf líka að gá að því hvað aðrir þurfa að borga. Það er ekki nóg að gá að því hvað ríkið borgar, eða þarf að borga. Hér eru á ferðinni alveg klárlega miklar álögur á útgerðarmenn í landinu fram yfir það sem hefur verið fram að þessu. Það er verið að stofna í voða eftirliti sem hefur ekki einu sinni verið nógu gott fram að þessu, hvað þá að það verði það eftir að menn eru búnir að fara svona að eins og þarna stefnir í.

Þetta vildi ég aðeins segja af því að Siglingastofnun fær hér tækifæri til þess, eins og sagt er, að styrkja innheimtu gjalda af þessu tilefni, klárlega að mínu viti, sem ég nefni til. Ég ætla samt að halda í vonina um að menn skoði þetta betur en ég ætla að endurtaka það sem ég hef áður sagt við hæstv. ráðherra út af þessu máli, ekki þó við þetta tækifæri. Siglingastofnun Íslands hefur aldrei staðið undir nafni sem eftirlitsaðili með byggingu og eftirliti á skipum. Hún hefur aldrei gert faglegar kröfur til þeirra sem hafa átt að bera ábyrgð á því að smíða skip. Hún hefur aldrei gert kröfu um að menn hefðu réttindi í þeirri grein til þess að standa fyrir þeim framkvæmdum sem þar er um að ræða. Þetta er sambærileg iðngrein við t.d. byggingariðnaðinn í landinu. Þar gera menn faglegar kröfur um meistararéttindi og nám af öllu tagi á bak við slíkar byggingar. Í skipasmíðum hefur þessi krafa aldrei verið og að stofnunin skyldi vera látin fara út í það að einkavæða eftirlit með skipum án þess að það væri einu sinni búið að taka á þessum þáttum er auðvitað þeim sem yfir þessu tróna sem stjórnendur til algerrar skammar. Og mér finnst að ýmislegt bendi til þess að þeir fái að súpa af því eitthvert seyði.