Siglingastofnun Íslands

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 16:15:13 (3668)

2004-01-29 16:15:13# 130. lþ. 53.7 fundur 467. mál: #A Siglingastofnun Íslands# (siglingavernd, kóðar, gjaldtaka) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að enginn bakari yrði ráðinn, með fullri virðingu fyrir þeirri iðngrein, til þess að hafa eftirlit með eða taka að sér að vera byggingarfulltrúi í neinu sveitarfélagi og mér finnst ekki að neinn skipstjóri eigi að taka það að sér að hafa eftirlit með smíði skipa, svo ég taki bara dæmi um það sem þarna er á ferðinni. Mér finnst að menn þurfi að bera meiri virðingu fyrir faglegri þekkingu og námi í landinu en hefur verið gert hvað varðar skipasmíðar og eftirlit með skipum. Mér finnst að hæstv. ráðherra hefði þurft að fara svolítið betur ofan í þessi mál áður en hann lagði í þessa göngu og sjá til þess að þar væri vel að öllu staðið og gáð.

Ég ætla ekki að gleyma að nefna aftur hækkunina á þessum gjöldum. Hæstv. ráðherra kallar þetta nokkra hækkun. En ef ég er með réttar tölur hefur t.d. útseld vinna hjá skoðunarmanni hækkað úr 2.300 kr. eða 2.400 kr. upp í 4.500 kr. Ég segi eins og er: Mér finnst þetta býsna meira en nokkur hækkun og dálítið undarlegt að hana skuli bera upp einmitt þegar einkavæðingin er að renna úr hlaði. Þeirri hugsun slær að manni að það hafi átt að létta þeim aðeins róðurinn sem ættu fyrir höndum að skrifa reikninga fyrir eftirlit í hinum einkavæddu skoðunarstofum.

Allt er þetta með þeim hætti að það er full ástæða til að taka umræðu um það. Ég gerði reyndar tilraun til þess að vara hæstv. ráðherra við þessu og að hann þyrfti að gá að sér í þessum málum. Gerði það í fyrra þegar þetta frv. var til umræðu sem nú er orðið að lögum, en það hefur greinilega ekki borið nægjanlegan árangur.