Hugverkaréttindi á sviði iðnaðar

Fimmtudaginn 29. janúar 2004, kl. 16:21:19 (3670)

2004-01-29 16:21:19# 130. lþ. 53.8 fundur 442. mál: #A hugverkaréttindi á sviði iðnaðar# (ELS-tíðindi) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 130. lþ.

[16:21]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli sem iðnrh. fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar vegna rafrænnar útgáfu ELS-tíðinda, á þskj. 613, 442. mál þingsins.

Á grundvelli löggjafar um einkaleyfi, vörumerki og hönnun hefur Einkaleyfastofan gefið út svokölluð ELS-tíðindi sem hafa að geyma allar tilkynningar varðandi umsóknir og skráningu hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Um prentaða útgáfu er að ræða, en frá árinu 2001 hefur Einkaleyfastofan samhliða birt ELS-tíðindi á netinu. Á vefsíðu stofunnar er reyndar að finna tölublöð af þessum tíðindum allt frá árinu 1990. Reynslan af útgáfu tíðindanna á netinu hefur verið góð.

Með frv. þessu eru lagðar til breytingar á framangreindum lögum þannig að heimilt sé að gefa ELS-tíðindi eingöngu út á rafrænan hátt og dreifa þeim á netinu. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð fer birting sambærilegra tíðinda nú þegar fram með rafrænum hætti. Þá má nefna að á árinu 2002 var heimilað með lögum að gefa Lögbirtingablað út með rafrænum hætti.

Í greinargerð með frv. til þeirra laga segir m.a., með leyfi forseta:

,,Rafræn miðlun upplýsinga er í senn skilvirk og ódýr leið til að koma upplýsingum á framfæri, auk þess sem hún er betur til þess fallin að ná því markmiði birtingar að efni, sem á erindi við allan almenning, verði kunnugt og aðgengilegt.``

Ég tel að sömu rök eigi við um útgáfu ELS-tíðinda og útgáfu Lögbirtingablaðs í rafrænu formi.

Eftir að útgáfa ELS-tíðinda verður eingöngu rafræn geta þeir sem þess óska áfram keypt útprentun af tíðindunum gegn greiðslu kostnaðar af útprentun þeirra og sendingu. Ekki er búist við mörgum óskum um slíkt og jafnframt að þeim óskum muni fara fækkandi og leggjast af er tímar líða fram. Kostnaður við útgáfu ELS-tíðinda er talinn munu lækka um 1,5 millj. kr. á ári, auk þess sem tíðindin berast notendum fyrr en ella. Rafræn birting er auk þess umhverfisvæn.

Ekki er gert ráð fyrir neinum viðbótarkostnaði úr ríkissjóði vegna frv. heldur lækkun útgáfukostnaðar Einkaleyfastofu, eins og áður segir. Væri frv. ekki lagt fram mundi útgáfukostnaður stofunnar hins vegar aukast til muna. Einkum yrði það vegna gildistöku alþjóðasamnings um alþjóðlega skráningu hönnunar 23. desember 2003 sem yrði virk 1. apríl 2004, en viðbót á birtu efni mundi þá leiða til þess að líma þyrfti ELS-tíðindin í stað þess að hefta þau.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn. Í frv. er stefnt að gildistöku laganna 1. mars 2004, en bent skal á að 1. apríl 2004 væri í lagi sem gildistökudagur, þ.e. sá dagur þegar gildistaka alþjóðasamningsins um skráningu hönnunar yrði virk. Gæti þingnefndin íhugað þetta.