Fjárfestingar Landssímans

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:05:08 (3674)

2004-02-02 15:05:08# 130. lþ. 54.1 fundur 273#B fjárfestingar Landssímans# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek auðvitað undir árnaðaróskir til ríkisstjórnar og okkar allra í tilefni af stórafmælishátíðarhöldum. Það er gott að hafa eitthvað til að gleðjast yfir og eyða tímanum í svona í svartasta skammdeginu og lyfta sér upp í leiðinni.

Ég ætla að beina orðum mínum til hæstv. fjmrh. sem fer nú með málefni Landssímans, þ.e. fer með eignarhald ríkisins á Landssímanum samkvæmt nýlegri breytingu. Það eru tveir atburðir í framgöngu Langssímans að undanförnu sem ég vil ræða við þann ráðherra sem fer með eigendavaldið nánast alfarið í þessu fyrirtæki. Annar eru nýlegar ákvarðanir Landssímans um að kaupa í búlgarska símafyrirtækinu og gera það þannig að keyptur verður eignarhlutur í eignarhaldsfélaginu Carrera sem er að meiri hluta í eigu einstaklings og Síminn verður þar sem sagt minnihlutameðeigandi í þessari fjárfestingu í Búlgaríu. Upplýst er að kaupverðið eða hlutafjárframlag Símans verði um 300 millj. kr. Hinn er sú ákvörðun Landssímans að fara út í það sem kallað er á fínu máli endurmörkun eða ,,rebranding`` á erlendum málum og samkvæmt upplýsingum sérfræðinga eða mati sérfræðinga, t.d. sem birtist í viðskiptakálfi Morgunblaðsins fimmtudaginn 22. janúar, er hér um mörg hundruð millj. kr. kostnað að ræða hjá þeim tveimur fyrirtækjum sem í þetta hafa ráðist að undanförnu, þ.e. KB-banka og hins vegar Landssímanum. Það er upplýst að svissneskt ráðgjafarfyrirtæki hefur nú vit fyrir Landssímanum íslenska og kannski er hluti af ráðgjöfinni sá að fjárfesta í fjarskiptakerfum erlendra þjóða. Þetta er fyrirtækið sem ekki hefur mörg ár í röð getað séð af 35 millj. kr. til að lagfæra fjarskiptamál í Norður-Þingeyjarsýslu. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er þessi fjárfestingarstefna með samþykki ríkisstjórnarinnar? (Forseti hringir.) Er hún uppáskrifuð af hæstv. fjmrh.? Hvað finnst honum um þetta fyrirtæki eða þetta tiltæki, skulum við segja?