Fjárfestingar Landssímans

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:07:25 (3675)

2004-02-02 15:07:25# 130. lþ. 54.1 fundur 273#B fjárfestingar Landssímans# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Landssíminn er framsækið fyrirtæki sem er í höndum nútímalega þenkjandi stjórnenda og ég geri enga athugasemd við það þó að þeir færi sér í nyt nýjar aðferðir við að efla fyrirtækið eins og t.d. það að fara út í svokallaða endurmörkun. Ég hef reyndar ekkert vit á því og hef ekki kynnt mér það út í hörgul, en ég treysti stjórnendunum til þess að taka ekki annað en skynsamlegar ákvarðanir hvað það varðar.

Varðandi fjárfestingu fyrirtækisins erlendis er það að sjálfsögðu ákvörðun sem tekin er af stjórnendum og alveg áreiðanlega í umboði stjórnar félagsins. Ég held að þetta sé til marks um það að fyrirtæki eins og Síminn getur átt mjög góða framtíð ekki bara á fjarskiptamarkaði innan lands heldur einnig með því að fjárfesta og færa út kvíarnar að einhverju leyti til annarra landa þar sem hann getur boðið upp á tækniþekkingu og sérfræðiþekkingu, sem e.t.v. er ekki á boðstólum í landi eins og Búlgaríu geri ég ráð fyrir. Ég hef því engar athugasemdir gert við það heldur og treysti því að þar sé vel og skynsamlega að málum staðið. Hins vegar styttist vonandi í því að ráðherrar á Alþingi fái fyrirspurnir um einstakar fjárfestingarákvarðanir fyrirtækisins Landssímans vegna þess að slík starfsemi á að sjálfsögðu betur heima í höndum einkaaðila en ríkisins.