Skipan nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:13:06 (3679)

2004-02-02 15:13:06# 130. lþ. 54.1 fundur 274#B skipan nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. setti á nefnd um íslenskt viðskiptaumhverfi í síðustu viku. Eftir því sem ég skil best á sú nefndarskipan rætur í ríkisstjórnarsamþykkt. Um þessa nefndarskipan er allt gott að segja. Þessi nefnd hefur það verkefni að ræða stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis og hvernig bregðast megi við aukinni samþjöppun o.s.frv., mál sem er mjög ofarlega á baugi í íslensku samfélagi í dag. Það sem hins vegar vekur sérstaka athygli er skipan þessarar nefndar. Í henni eiga sjö einstaklingar sæti. Þrír koma frá háskólasamfélaginu og svo skipta stjórnarflokkarnir hinum fjórum sín á milli. Þar eru á ferðinni þrír aðstoðarmenn ráðherra núverandi eða fyrrvernadi og yfirlýstur framsóknarmaður utan af Nesi. Ég spyr hæstv. viðskrh. hvernig á því stendur þegar jafnveigamikil nefnd er saman sett að ekki skuli vera kallaðir til liðsinnis aðilar vinnumarkaðarins, sem eru jú hinir virku í atvinnulífi hvort heldur um er að ræða fulltrúa verkalýðshreyfingar ellegar Samtaka atvinnulífsins. Einnig kalla ég sérstaklega eftir því hvernig á því standi að ekki sé leitað eftir tilnefningu frá stjórnarandstöðu í þessu stóra máli þannig að leita hefði mátt samráðs hjá henni um að ná um það tiltölulega víðtæku samkomulagi ef við á að bregðast vegna þróunar íslensks atvinnulífs. Þessi nefndarskipan er því með gamla laginu og því miður vekur hún tortryggni og er ekki til þess lagin að skapa um þetta víðtæka sátt til þess að koma þessum mikilvægu málum fram. Ég leita eftir skýringum, herra forseti.