Skipan nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:17:16 (3681)

2004-02-02 15:17:16# 130. lþ. 54.1 fundur 274#B skipan nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það gefur augaleið að hvort sem það er samkvæmt gamla laginu eða nýja laginu að þeir hafa dottið af himnum ofan Orri Hauksson, Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður forsrh., og Páll Magnússon, aðstoðarmaður viðskrh. Þeir eru auðvitað samkvæmt gamla laginu, hér eru gömlu helmingaskiptin á ferðinni eins og fyrri daginn og gerir nefndina því miður um margt ómerka áður en hún hefur störf --- með fullri virðingu fyrir þeim ágætu þremur einstaklingum sem koma frá háskólasamfélaginu. En að engum skyldi koma til hugar að leita eftir tilnefningum eða hugmyndum frá aðilum vinnumarkaðarins er algjörlega út úr korti og þessi nefnd á að fjalla um viðskiptaumhverfi atvinnulífsins.

Ég segi bara eins og er, herra forseti, að auðvitað hefði verið skynsamlegt og eðlilegt og sjálfsagt, bæði samkvæmt nýja laginu og gamla laginu, að stjórnarandstaðan kæmi hér að. En það er ekki háttur núv. ríkisstjórnar, gamla helmingaskiptaklíkan á að ráða för og hún gerir það í þessu máli eins og öðrum.