Málefni Þjóðminjasafns

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:24:31 (3688)

2004-02-02 15:24:31# 130. lþ. 54.1 fundur 276#B málefni Þjóðminjasafns# (óundirbúin fsp.), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Mörður Árnason:

Forseti. Nú er haldið upp á 100 ára afmæli heimastjórnar. Þá er rétt að minnast þess líka að þegar stofnað var lýðveldi á Íslandi gaf þjóðin sjálfri sér gjöf sem var Safnahúsið við Suðurgötu þar sem Þjóðminjasafnið er nú. Nú á 100 ára afmælinu hefur það verið lokað í fjögur ár og sex mánuði upp á dag eða í níu missiri.

Björn Bjarnason, hæstv. menntmrh. á þeim tíma, sagði 28. nóv. 1997 að húsið yrði opnað árið 2000. Á Þorláksmessu 1997 sagði hann að það yrði opnað 17. júní árið 2000. Þann 13. febrúar 1999 sagði sá sami að það yrði opnað 17. júní 2001. Á skilti sem stóð í byrjun aldarinnar við Þjóðminjasafnið við Suðurgötu stóð að það yrði opnað 1. desember 2002. Tómas Ingi Olrich, sem héðan er farinn en var menntmrh., hann sagði 1. febrúar 2003 að safnið yrði opnað sumardaginn fyrsta, 22. apríl 2004. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núv. hæstv. menntmrh., sagði í Morgunblaðinu nú 30. janúar að safnið yrði opnað ,,síðar á árinu``, með leyfi forseta.

Ég spyr: Liggur virkilega engin dagsetning fyrir eftir fimm ár og sex mánuði um það hvenær á að opna þetta hús? Á að opna það í vor, á að opna það í sumar, á að opna það í haust, við veturnætur, á jólaföstu, á gamlársdag? Er það virkilega þannig að í menntmrn., hjá hæstv. nýviðteknum ráðherra, liggi ekki fyrir nein dagsetning eða nein áform um það hvenær þetta safn verður opnað á ný?