Samkeppnisstaða háskóla

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:33:08 (3695)

2004-02-02 15:33:08# 130. lþ. 54.1 fundur 277#B samkeppnisstaða háskóla# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að þetta eru óundirbúnar fyrirspurnir. Ég hef því ekki allar þessar nákvæmu tölur til taks. Það væri sjálfsagt mál að svara þeim nánar í skriflegri fyrirspurn. Ég skal reyna að fara yfir þetta eins og ég get og mig rekur minni til. En fjárhæðirnar sem hinn ágæti rektor, Runólfur Ágústsson, setur fram í máli sínu eru ekki fjarri sanni. Á hinn bóginn má segja að það sé ekki að öllu leyti sanngjarnt af þeim ágæta rektor að bera saman þessa tölu við Háskóla Íslands, háskóla sem hefur miklu víðfeðmara hlutverk en Viðskiptaháskólinn á Bifröst hefur í dag. Það eru miklu fleiri námsflokkar og fleiri greinar sem falla undir Háskóla Íslands og þar af leiðandi fara hærri fjárhæðir þar á hvern nemanda, þegar allt er tekið með, í Háskóla Íslands.

Varðandi þær fjárhæðir sem eru m.a. í fjárlögum varðandi rannsóknir þá vil ég undirstrika að enn er ekki búið að klára rannsóknarsamning, t.d. við Háskólann í Reykjavík, hvað þá kennslusamning, og ekki heldur við Bifröst. Við erum búin að klára samninga við Háskóla Íslands, kennslu- og rannsóknarsamninga. Það var gert fyrir jól. Við erum að vinna að hinum samningunum núna og væntum góðs samstarfs af hálfu þeirra sem við komum til með að skipta við.

Það er líka ljóst að það er stefna Vísinda- og tækniráðs að auka samkeppni í rannsóknum og vísindum. Að sjálfsögðu mun menntmrn. stuðla að því að þeirri stefnu verði framfylgt.