Samkeppnisstaða háskóla

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:36:22 (3697)

2004-02-02 15:36:22# 130. lþ. 54.1 fundur 277#B samkeppnisstaða háskóla# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan eru þær fjárhæðir sem Runólfur Ágústsson gat um ekki fjarri sanni. En þegar við tölum t.d. um fjárhæðir til Háskóla Íslands þá verðum við líka að hugsa um hvaða peningar eru settir í rannsóknir þar og hversu hár hluti rannsóknarpeninganna sem fara til Háskóla Íslands renna í raun til kennsluþáttarins. Það geta verið allt að því 30--40%. Það er alltaf erfitt að bera svona tölur saman en heildarfjárhæðirnar til háskólanna eru svipaðar því sem Runólfur Ágústsson setur fram.

Ég ítreka að þótt við viljum stuðla að því að efla frekari samkeppni í rannsóknum og vísindum þá, eðli málsins samkvæmt og vegna áratuga reynslu þess háskóla, kemur Háskóla Íslands alltaf til með að vera sterkari og standa betur að vígi en aðrir háskólar vegna þeirrar reynslu sem hann hefur meðal starfsmanna og vegna þess sem hann hefur með í farteskinu upp á framtíðina að gera. En samkeppni mun komast á í rannsóknum.