Áherslur í byggðamálum

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:39:12 (3699)

2004-02-02 15:39:12# 130. lþ. 54.1 fundur 278#B áherslur í byggðamálum# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er skoðun mín og reyndar margra annarra að nú stefni í frekara ójafnvægi í byggðamálum og hafi gert um nokkurt skeið. Við höfum flutt þáltill. um það mál, bæði í fyrra og aftur í haust. Ég tók grannt eftir því er hæstv. utanrrh. orðaði það svo fyrir nokkru síðan að nú væri komið að norðvesturhluta landsins hvað varðar áherslur í byggðamálum.

Síðustu fréttir af málum tengdum byggðamálum eru af nýsköpunarverkefni sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Þar kom ýmislegt á óvart, þ.e. hvernig þeim fjármunum var deilt niður. Ég hafði satt að segja ímyndað mér að hvert tækifæri yrði notað til að reyna að jafna eitthvað stöðuna í byggðamálum.

Auðvitað sjá allir að fjármunir hafa í miklum mæli streymt til austurhluta landsins á undanförnum árum. Þar fara nú fram mestu framkvæmdir í sögu ríkisins í orkuiðnaðarmálum. Þar er búið að taka ákvarðanir um að grafa ekki færri en þrenn jarðgöng. Byggðaáætlun var með sérstaka áherslu á þann hluta landsins og allt gott um það að segja. En þetta þýðir, sem ætti að hafa verið mönnum ljóst fyrir löngu síðan, að það þarf að taka á varðandi suma aðra hluti landsins.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða verkefni eða ráðstafanir eru í undirbúningi til að taka á þeim vanda sem í stefnir? Ég sé fulla ástæðu til að spyrja eftir þessu. Ég minni á orð hæstv. utanrrh. hvað þetta varðar.