Áherslur í byggðamálum

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:41:25 (3700)

2004-02-02 15:41:25# 130. lþ. 54.1 fundur 278#B áherslur í byggðamálum# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér finnst ágætt að fá að svara þessu vegna þess að hv. þm. hefur verið með aðdróttanir í fjölmiðlum þess efnis að um pólitíska úthlutun hafi verið að ræða varðandi úthlutun Byggðastofnunar þegar úthlutað var 350 millj. kr. til nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni. Hið rétta er að að þeim málum var unnið faglega og engin afskipti af úthlutuninni af minni hálfu. Það að Norðausturkjördæmi skyldi fá margar úthlutanir er eingöngu komið til af því að þaðan hafa borist góðar umsóknir.

Að sjálfsögðu sinnum við í ýmsum aðgerðum sem varða önnur kjördæmi og aðra landshluta. Það má t.d. nefna, sem er nýjung, að í tengslum við byggðaáætlun hefur iðnrn. gert samninga við önnur fagráðuneyti á ýmsum sviðum, menntmrn. og samgrn. og fleiri. Í þeim samningum er t.d. mjög mikið um fjárveitingar til Norðvesturkjördæmis. Ég get þó ekki talið það allt saman upp en ég reikna með að hv. þm. sé sérstaklega að horfa til þess kjördæmis. Það er staðreynd.

Eins má geta þess að það er verið að vinna að byggðaáætlun fyrir Vestfirði með sérstakri áherslu á Ísafjörð. Út úr því hefur margt mjög áhugavert komið. Þar hjálpaði til að heimamenn höfðu unnið eigin byggðaáætlun og á henni byggjum við þessa áætlun. Á Ísafirði eru t.d. í gangi klasaverkefni sem er gott mál og fleira gæti ég nefnt, bæði á sviði ferðamála og menntamála.