Breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:51:19 (3705)

2004-02-02 15:51:19# 130. lþ. 54.94 fundur 283#B breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), Flm. JBjarn (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Sala Landsbankans á útgerðarrisanum Brimi, sem samanstóð af Útgerðarfélagi Akureyringa, Skagstrendingi og útgerðarfélagi Haraldar Böðvarssonar á Akranesi vakti miklar umræður. Gríðarleg óvissa ríkti um lyktir málsins, einkum á þeim stöðum sem hlut áttu að máli.

Sjávarútvegurinn stendur nú fyrir meira en 60% af heildarútflutningsverðmætum þjóðarinnar. Hér var vélað um 12% af allri kvótaeigninni, setja á uppboð um áttunda hluta af öllum Íslandsmiðum. Hér var því um stórmál þjóðarinnar allrar að ræða.

Fyrir rúmu ári keypti Eimskipafélag Íslands Útgerðarfélag Akureyringa, Harald Böðvarsson og Skagstrending og stofnaði útgerðarfélagið Brim. Stjórnendur Eimskips lýstu yfir að þessi kaup væru ekki gerð með stundargróða í huga heldur væri þetta liður í langtímaáformum fyrirtækisins.

En þessi ákvörðun stóð ekki lengi. Einkavæddur Landsbanki, sem hafði verið seldur á spottprís, gleypti á einni nóttu Eimskip. Hinir nýju eigendur vissu hvar fjármagn var að finna, þ.e. í sjávarútvegsfyrirtækjum Eimskips. Landsbankinn var með flest þessara sjávarútvegsfyrirtækja í viðskiptum og vissi nákvæmlega hver eigna- og rekstrarstaða þeirra var. Þar á bæ vissu menn líka að þeir hefðu visst kverkatak á atvinnuveginum og viðkomandi sjávarbyggðum. Þeir gátu nánast skammtað sér það söluverð sem þeim sýndist. Þeir réðu líka lánskjörum kaupendanna.

Árangurinn lét ekki á sér standa. Með sölu á Skagstrendingi, Útgerðarfélagi Akureyringa og Haraldi Böðvarssyni drógu eigendur Landsbankans í hreinan gróða eftir skatta, eftir nokkurra vikna eign á þessum fyrirtækjum, um 3 milljarða kr.

,,Hugsum fyrst og fremst um hagsmuni hluthafa,`` segir flennifyrirsögn Fréttablaðsins 19. okt. á síðasta ári. Þar var vitnað í viðtal við nýráðinn stjórnarformann Eimskips.

Fyrir nokkrum árum gekk sú bylgja yfir að sjávarútvegsfyrirtæki þyrftu að vera svo stór og sterk að þau gætu boðið sig á almennum hlutabréfamarkaði og sótt þar með áhættufjármagn í greinina. Í reynd var þetta þannig að þau stærri, sem höfðu aðgang að lánsfé, keyptu hin minni upp. Það kom ekkert nýtt fjármagn inn. Skuldirnar hlóðust upp í sjávarútveginum á nýjan leik eftir að aflaheimildirnar höfðu verið gefnar útgerðinni á sínum tíma til að styrkja eiginfjárstöðu hennar.

Herra forseti. Að sækja 3 milljarða kr. á örfáum dögum er ekki að fá eðlilegan arð af eignum sínum. Þetta er rán. Í stað þess að eigendur Landsbankans kæmu með nýtt fjármagn inn í sjávarútveginn og styrktu samkeppnisstöðu hans er hann á örfáum dögum blóðmjólkaður og peningarnir fluttir úr landi og virðast nú dúkka upp í kaupum á búlgarska símanum. Hvert fyrirtækið á fætur öðru er á harðahlaupum að forða sér af opnum hlutabréfamarkaði og loka á innbrot eða rán eins og átti sér stað í skjóli ranglátra laga við kaup og sölu á sjávarútvegsfyrirtækjum Brims. Söluferli Brims hefur sýnt flesta galla þess fiskveiðistjórnarkerfis sem við búum við.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að beina eftirtöldum spurningum til hæstv. sjútvrh.:

Hefur ráðuneytið látið gera úttekt á því hversu mikið fjármagn var tekið út úr sjávarútveginum við sölu Landsbankans á sjávarútvegsfyrirtækjum Brims? Hve mikið jukust skuldir sjávarútvegsins við þær sölur einar sér?

Hvernig voru þessi kaup fjármögnuð? Ef þau eru fjármögnuð með erlendu lánsfé þýða þau enn meira álag á gengi krónunnar og skerta samkeppnisstöðu sjávarútvegsins. Hver er eiginlega heildarskuldastaða sjávarútvegsins í dag?

Hvernig hyggst ráðherra eða ríkisstjórn bregðast við til að styrkja samkeppnisstöðu útflutningsgreina sjávarútvegsins og verja atvinnuveginn gegn innrásum af því tagi sem Landsbankinn beitti við að soga fjármagn út úr fyrirtækjum Brims?

Hefur ráðuneytið lagt mat á hvaða áhrif þessi viðskipti hafa á atvinnuöryggi fólks í sjávarútvegi og framtíð minni útgerðarfyrirtækja?

Virðulegi forseti. Við sölu Brims kom berlega í ljós hið mikla óöryggi sem íbúar sjávarbyggðanna búa við í núverandi kvótakerfi fiskveiða. Því leyfi ég mér að spyrja: Mun ráðherra beita sér fyrir endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins sem miði að því að færa aukinn ráðstöfunarrétt aflaheimilda til byggðanna og styrkja þar með og efla atvinnu og búsetu í sjávarbyggðunum?