Breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 16:15:52 (3713)

2004-02-02 16:15:52# 130. lþ. 54.94 fundur 283#B breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), HBl
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er eðlilegt að þessi mál beri á góma hér á Alþingi. Það eru mikil tíðindi þegar jafnöflugt og sterkt fyrirtæki og Brim er leyst upp og boðið út í þrem pörtum. Það er ekki launungarmál að við á Akureyri bundum miklar vonir við það fyrirtæki sem var alhliða fyrirtæki í sjávarútvegi og stóð fyrir margvíslegri rannsóknar- og þróunarstarfsemi, bæði hér innan lands og erlendis, og þess vegna var það mikil ákvörðun að tvístra því fyrirtæki með þeim hætti sem gert var. Leikurinn er þannig að þeir sem eiga fyrirtækin ráða hvað þeir gera við þau en auðvitað hljóta menn sem bera mikla ábyrgð að taka á sig þær þjóðfélagslegu skyldur sem slíku fylgir.

Á hinn bóginn eru það góðar fréttir að Guðmundur Kristjánsson og þeir feðgar hafa ævinlega staðið vel að sínum málum og sinni útgerð, og þeim fylgir mikið traust. Við skulum ekki gleyma því að Útgerðarfélag Akureyringa var vel rekið og öflugt fyrirtæki sem stendur fyllilega undir þeim vonum sem til þess hafa verið gerðar og því trausti sem til þess var gert, sem með öðru sýnir að Eimskipafélag Íslands var mjög vel rekið fyrirtæki.

Ég vil líka vekja athygli á því að mikil og öflug fyrirtæki skapa mikið atvinnuöryggi í sínum byggðarlögum. Við sjáum þetta við Eyjafjörð. Við sjáum þetta á stöðum eins og í Fjarðabyggð. Við sjáum þetta á Stöðvarfirði. Og það er auðvitað svo að ef menn vilja leggja fé sitt í sjávarútvegsfyrirtæki verða þeir líka að eiga von á því að fá greitt andvirði þeirra ef þeir vilja selja.

Ég hygg að þegar á heildina er litið hafi salan á Brimi tekist vel en ég ítreka það sem ég áður sagði að ég sakna þessa sterka fyrirtækis sem var á Akureyri því margir bundu við það miklar vonir, eðlilega, eins og að því hafði verið staðið.