Breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 16:20:35 (3715)

2004-02-02 16:20:35# 130. lþ. 54.94 fundur 283#B breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég get nú ekki annað en óskað þess að hv. þm. Jón Bjarnason hlusti meira á Guðmund Smára Guðmundsson en hann hefur gert hingað til (JBjarn: Þú ættir að hlusta á hann.) ... heldur en hann hefur gert hingað til. Ég hlusta alltaf á hann. (Gripið fram í.) Hv. þm. Jón Gunnarsson spurði hvort okkur kæmi þetta við. Og auðvitað var rétt svarið hjá honum: Okkur kemur þetta við. Þess vegna höfum við hér á hv. Alþingi sett um þetta lög og reglur, og þau lög og þær reglur eru að virka. Það sjáum við á því sem hér er um að ræða.

Það hefur mikið verið talað um upplausnarverð, en upplausnarverðið kom bara afskaplega lítið við sögu því þessi fyrirtæki voru seld miðað við rekstrarniðurstöðu og þau geta staðið undir þessum kaupum miðað við sinn rekstur. Hins vegar hefur verið blandað inn í þetta öðrum málum hér eins og Fiskistofu, rekstrarkostnaður Fiskistofu borinn saman við eiturlyfjalögregluna. Það er eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson telji að Fiskistofa geri ekkert annað en eltast við brotlega sjómenn. Það er margt annað sem þar fer fram og verið að sýsla en að eltast við þá sem eru brotlegir. Og hann nefndi einnig ástand fiskstofnanna. Við höfum bara aldrei veitt meira og aldrei tekið meira úr auðlindinni en núna síðustu árin. Og ástand fiskstofna er í jafnvægi eða á uppleið í langflestum tilfellum.

Framsalið hefur líka komið við sögu hér. Framsalið er einmitt það sem hefur leitt til hagræðingarinnar. Framsalið hefur verið drifkraftur í okkar kerfi. Og ef við skoðum það núna er ekki verið að framselja heimildir, það er ekki einu sinni verið að selja skip. Það er verið að selja fyrirtæki. Og hverju hefur þetta skilað okkur? Við höfum ekki tapað hundruðum milljóna eins og einhver var að tala um, við höfum skapað hundruð milljóna með því kerfi sem hér hefur verið. Við höfum skapað milljarða með því kerfi sem hér hefur verið við lýði.

Og einhver spurði: Hvað stendur eftir? Jú, hann taldi að það væri umræðan sem stæði eftir. Nei, það er rangt. Það sem stendur eftir er það (Gripið fram í.) að við erum með þrjú stór (Gripið fram í.) --- viltu leyfa mér að hafa orðið, herra þingmaður? Það sem stendur eftir er að við erum með þrjú öflug fyrirtæki og öflugt sjávarútvegskerfi sem skilar þjóðinni miklum arði, herra forseti.