Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 16:28:04 (3719)

2004-02-02 16:28:04# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um erfðafjárskatt sem ætlað er að leysa af hólmi núgildandi lög um erfðafjárskatt, nr. 83/1984, með síðari breytingum.

Erfðafé hefur lengi verið talið eðlilegur skattstofn í þróuðum ríkjum og á sér langa sögu hér á landi. Sama er að segja um önnur aðildarríki OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, en þar er þessi skattur alls staðar lagður á nema í tveimur af 30 aðildarríkjum.

Fyrir þessari skattlagningu liggja ýmis rök varðandi yfirfærslu fjár milli kynslóða en almennt talið er erfðafjárskatturinn vitaskuld einungis ein leið af mörgum til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.

Samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt er meginreglan sú að skattskyldar tekjur teljast hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Sérreglur um greiðslu erfðafjárskatts af tilteknum verðmætum sem skattaðilum hlotnast eru því undantekning frá þessari meginreglu.

Þannig segir í 4. tölul. a-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, að til skattskyldra tekna teljist:

,,Beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja, nema um fyrirframgreiðslu upp í arf sé að ræða. Undanskildar eru þó tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir ...`` Þá kemur fram í 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. sömu laga þar sem talið er upp hvað ekki telst til tekna að þar á meðal er ,,Eignaauki vegna arftöku, fyrirframgreiðslu arfs og dánargjafa, enda hafi erfðafjárskattur verið greiddur.``

[16:30]

Meðal þeirra atriða sem hafa verið gagnrýnd í núgildandi lögum um erfðafjárskatt er skortur á skýrum reglum um ákvörðun gjaldstofns til erfðafjárskatts. Mest ber þó á gagnrýni á skatthlutfallið sjálft sem fer stighækkandi eftir hæð gjaldstofns og sifjatengslum og getur orðið allt að 45%. Ljóst er að stighækkandi skattur getur skapað ákveðna hættu á ýmiss konar ráðstöfunum fyrir andlát arfleifanda með það fyrir augum að draga úr skatti eða minnka skattstofninn, og síðan er að sjálfsögðu almennt talið að háir jaðarskattar ýti undir skattundandrátt.

Í gildandi lögum eru matskenndar heimildir fyrir ráðherra til að undanþiggja ákveðna aðila greiðslu erfðafjárskatts. Þannig hefur ráðherra samkvæmt gildandi lögum heimild til að undanþiggja greiðslu erfðafjárskatts eins og um maka eða sambýlismann væri að ræða ,,annars konar sambúðarform ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, svo sem varanleg örorka, alvarleg veikindi eða aðrar sambærilegar aðstæður``. Þessi heimild hefur reynst afar erfið í framkvæmd, svo matskennd sem hún er. Þá greiða kirkjur, opinberir sjóðir, líknar- og menningarstofnanir og félög ekki erfðafjárskatt. Í mörgum tilvikum er ekki augljóst hvort uppfyllt séu skilyrði fyrir umræddri undanþágu.

Málsmeðferðarreglur erfðafjárskatts, sem og álagning, eftirlit og innheimta hans, hafa verið mjög frábrugðnar því sem almennt gildir um aðra skatta. Álagning og innheimta skattsins hefur alfarið verið á hendi sýslumanna, en eins konar viðbótareftirlit hjá skattstjórum og Ríkisendurskoðun. Þannig hafa skattstjórar haft það hlutverk að yfirfara erfðafjárskýrslur að lokinni innheimtu skattsins, jafnframt því að gera sýslumönnum viðvart hafi einhverju verið ábótavant við álagninguna. Að öðru leyti hafa skattyfirvöld ekki komið að álagningu og eftirliti með erfðafjárskattinum og hafa ágreiningsmál milli aðila ekki verið kæranleg til yfirskattanefndar eins og gildir um aðra skatta.

Ég vil þá, virðulegur forseti, gera grein fyrir nokkrum helstu breytingum sem í frumvarpinu felast.

Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins eru það erfingjar sem eru skattskyldir, þ.e. þeir er taka við arfi, gjafaarfi, dánargjöfum, fyrirframgreiddum arfi og gjöfum þar sem gefandi hefur áskilið sér afnot eða tekjur af hinu gefna.

Samkvæmt gildandi lögum eru maki og sambýlismaður eða sambýliskona undanþegin greiðslu erfðafjárskatts. Jafnframt er í gildandi lögum gert ráð fyrir heimild ráðherra til að undanþiggja greiðslu erfðafjárskatts með þeim hætti sem ég rakti hér áðan. Sama gildir um undanþágu frá greiðslu skattsins fyrir tiltekna aðila sem taldir eru upp í gildandi lögum.

Í frumvarpi því sem nú er til umræðu er lagt til að heimildir ráðherra til að undanþiggja þessa aðila greiðslu erfðafjárskatts verði felldar brott. Maki og sambýlismaður eða sambýliskona verða þó áfram undanþegin greiðslu erfðafjárskatts. Samfara þeim lækkunum skatthlutfallsins sem lagðar eru til í frumvarpinu er talið að ekki séu lengur forsendur fyrir sérstökum undanþágum sem verið hafa í gildi hingað til auk þess sem það hefur valdið vandkvæðum í framkvæmd að meta framangreind skilyrði fyrir undanþágu. Mun breytingin leiða til þess að fyrrgreindir aðilar greiði framvegis 10% erfðafjárskatt.

Í frumvarpinu er erfingjum skipað í tvo flokka í stað þriggja áður samkvæmt gildandi lögum.

Skipan í skattflokka byggist á skyldleika erfingja og arfleifanda og er skatthlutfallið mishátt eftir flokkum. Í a-flokki eru niðjar arfleifanda, kjörbörn, stjúpbörn, fósturbörn og niðjar þeirra, svo og þeir bréferfingjar sem arfleifandi hefur ráðstafað fé til samkvæmt heimild í 35. gr. erfðalaga, þ.e. þegar hann á skylduerfingja á lífi. Í b-flokki eru síðan aðrir en þeir sem falla undir a-flokk, þ.e. foreldrar hins látna og niðjar þeirra, þar á meðal systkin hins látna, afi og amma og börn þeirra, þar á meðal kjörbörn og svo fjarskyldari erfingjar og óskyldir.

Tvær veigamestu breytingar frumvarpsins eru annars vegar veruleg lækkun skatthlutfallsins og hins vegar hækkun skattfrelsismarka. Þannig er gert ráð fyrir að af erfðafé í a-flokki skuli greiða 5% erfðafjárskatt, í stað 5--10% í núgildandi reglum, og af erfðafé í b-flokki skuli greiða 10% erfðafjárskatt, í stað 15--45% skatts samkvæmt gildandi lögum. Ræðst skattfjárhæðin af skyldleika erfingja við arfleifanda. Skatturinn er því hærri eftir því sem skyldleikinn er firnari. Slíkar reglur eru réttlættar út frá erfðaréttarlegum sjónarmiðum, þ.e. með vísan til þess að erfðaréttur fjarskyldari ættingja er veikari en erfðaréttur náskyldra.

Samkvæmt gildandi lögum er skatthlutfall þeirra erfingja sem falla munu undir a-flokk samkvæmt þessu frumvarpi 5% á gjaldstofn undir 830 þús. kr. sem hækkar um 1% fyrir hverjar 830 þús. kr. umfram það mark þar til 4,1 millj. kr. eignamarki er náð. Af eignum umfram það greiðist 10% skattur. Í gildandi lögum fer skatthlutfall þeirra erfingja sem falla munu undir b-flokk stighækkandi miðað við 830 þús. kr. eignabil fyrir hver tvö prósent frá 15% upp í 25% þar til 4,1 millj. kr. eignamarkinu er náð. En sem fyrr segir er tillaga frumvarpsins sú að allir þeir erfingjar sem samkvæmt gildandi lögum falla undir c-flokk verði skattlagðir með erfingjum í b-flokki. Í c-flokki samkvæmt gildandi lögum er skatthlutfallið á bilinu 30--45% miðað við 830 þús. kr. eignabil fyrir hver þrjú prósent. Það þýðir að erfðafjárskattur af eignum umfram 4,1 millj. kr. í c-flokki er 45% samkvæmt gildandi lögum. Nái frumvarpið fram að ganga munu þessir aðilar greiða 10% erfðafjárskatt eftir breytinguna. Af þessu sést að tillaga frumvarpsins gerir ráð fyrir að verulega verði dregið úr jaðaráhrifum erfðafjárskattsins enda eru þau óvenjumikil í gildandi kerfi.

Er þá í frumvarpinu miðað við að heildarskattfrelsismörk í hverju dánarbúi verði 1 millj. kr. og að erfðafjárskattur verði eingöngu lagður á þá fjárhæð sem er umfram viðmiðunarmörkin. Í dag eru skattfrelsismörkin afar lág, eða einungis 60 þús. krónur. Þá er skatturinn lagður á alla fjárhæðina sé hún hærri en 60 þús. kr., en ekki einungis það sem umfram er. Skattfrelsismörkin hækka sem sagt úr 60 þús. kr. upp í 1 millj.

Samhliða verulegri lækkun skatthlutfallsins og hækkun skattfrelsismarkanna er horfið frá ýmsum undanþágum sem verið hafa í lögunum og ég áður rakti. Há skatthlutföll vekja ávallt upp kröfur um undantekningarreglur á ýmsum sviðum. Með þeirri lækkun og einföldun á skattlagningunni sem lögð er til með frumvarpinu ætti að vera svigrúm til þess að afnema undanþágur frá greiðslu erfðafjárskatts sem verið hafa í gildi án þess að það komi of þungt niður á þeim aðilum sem hafa getað nýtt sér þær til þessa.

Í frumvarpinu eru ítarlegri ákvæði um gjaldstofn erfðafjárskatts en verið hafa samkvæmt gildandi lögum, án þess að um breikkun skattstofnsins sé að ræða. Þá eru sett skýrari ákvæði um við hvaða tímamark skuli ákveða gjaldstofninn. Meginreglan verði að við ákvörðun gjaldstofns skuli miðað við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna. Frá þeirri meginreglu eru fjórar undantekningar sambærilegar þeim sem eru í gildandi lögum. Ein undanþágan varðar fasteignir en þær skulu taldar á fasteignamatsverði. Hins vegar er tekið upp mikilvægt nýmæli varðandi fasteignir sem felur það í sér að sé almennt markaðsverðmæti fasteignar talið lægra en fasteignamatsverð eignarinnar er erfingjum heimilt að óska eftir mati skv. 17.--23. gr. laga nr. 90/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Er þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið, enda fylgi erfðafjárskýrslu matsgjörð sem ekki er eldri en fjögurra vikna gömul.

Í frumvarpinu eru lagðar til ítarlegri reglur um málsmeðferð en er að finna í gildandi lögum. Annars vegar eru reglur um hlutverk sýslumanns við ákvörðun á erfðafjárskatti og hins vegar um eftirlitshlutverk skattstjóra. Þá er lögð til sú meginbreyting að ekki er gert ráð fyrir sérstöku eftirliti Ríkisendurskoðunar. Þess í stað er kveðið skýrar á um allt eftirlit skattstjóra. Gert er ráð fyrir að skattstjóri endurákvarði erfðafjárskatt komi fram nýjar eignir eða verðmæti við eftirlit hans í stað sýslumanns eftir gildandi lögum. Miðað er við að skattstjóri ljúki yfirferð sinni eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 40 dögum eftir að honum barst erfðafjárskýrsla frá sýslumanni. Engin slík ákvæði um málshraða er að finna í gildandi lögum, en með þessu er leitast við að ljúka þessum málum sem fyrst. Skattstjóra ber eftir sem áður að gera viðkomandi sýslumanni viðvart komi fram nýjar eignir sem ekki lágu fyrir í upphafi þar sem nauðsynlegt er að taka upp skiptin í slíkum tilvikum, sbr. lög um skipti á dánarbúum o.fl.

Í frumvarpinu eru einnig ítarleg ákvæði um gjalddaga erfðafjárskatts og viðurlög sé skatturinn ekki greiddur á réttum tíma, sem og endurgreiðslu oftekins erfðafjárskatts og kæruheimild til yfirskattanefndar, en hvort tveggja er nýjung.

Virðulegi forseti. Tekjur ríkissjóðs af erfðaskatti sveiflast talsvert milli ára. Erfitt er að leggja mat á tekjur af þessum skatti af nákvæmni. Tekjur af þessum skattstofni á síðasta ári, árið 2003, verða að líkindum u.þ.b. 800 millj. kr. þegar öll kurl verða komin til grafar.

Erfitt er að meta með nákvæmni áhrif breytingartillagna frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs, m.a. vegna ónógra upplýsinga um skiptingu skatttekna eftir gjaldflokkum í gildandi kerfi. Það má þó gera ráð fyrir því að ríkissjóður verði af ríflega helmingi núverandi tekna miðað við óbreyttan skattstofn. Í frv. felst því skattalækkun sem nemur u.þ.b. 400 millj. kr. á ári.

Ég vil nú leyfa mér að leggja til, virðulegi forseti, að máli þessu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og jafnframt til hv. efh.- og viðskn.