Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 16:51:48 (3721)

2004-02-02 16:51:48# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., GunnB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[16:51]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Ég fagna framkomnu frv. og þakka ráðherra fyrir það.

Fyrir ári síðan lagði undirritaður ásamt nokkrum þingmönnum Sjálfstfl. og einum þingmanni Framsfl. fram frv. af svipuðum toga, um að lækka erfðafjárskatt niður í flatan skatt, 5%, þannig að hann dygði fyrir kostnaði á skiptum búanna.

Það frv. náði ekki fram að ganga en lækkun erfðafjárskatts var sett inn í stefnumál Sjálfstfl. fyrir síðustu þingkosningar, hann var einn flokka sem kom með það. Síðan var þetta sett inn í stjórnarsáttmála og er nú verið að leggja frv. fram. Þetta er annað frv. sem ríkisstjórnin leggur fram varðandi skattalækkanir. Hið fyrra var á haustmissiri um sérstakan tekjuskatt eða hátekjuskatt, sem var lækkaður úr 5% í 4% og hverfur síðan út á næstu tveimur árum. Þetta er frv. númer tvö í skattalækkunarferli ríkisstjórnarinnar.

Þetta er mikið réttlætismál eins og talað var um áðan og það er kannski aðallega út af því að verið er að skatta hér fjármuni aftur, tvískatta, verið er að skatta fjármuni sem þegar er búið að greiða skatt af. Með þessu móti, það sem er breytt núna, er þetta einfaldað og undanþágum fækkað og málið gert miklu einfaldara. Eins og ráðherra kom inn á eru einungis tvö þrep, þ.e. 5% þrep þar sem tengsl eru mjög náin, með leyfi forseta, þá stendur hér í 5. gr. a-lið:

,,Af arfi, sem fellur til niðja hins látna, kjörbarna, stjúpbarna eða fósturbarna eða niðja þeirra, svo og af arfshluta sem ráðstafað hefur verið með erfðaskrá samkvæmt ákvæðum 35. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, skal greiða 5% erfðafjárskatt.``

Af öllum öðrum tengslum er gert ráð fyrir 10% erfðafjárskatti og frítekjumarkið eða skattleysismörk verða ein milljón í báðum tilvikum.

Síðan er annað mjög mikilvægt ákvæði hér, með leyfi forseta, sem kemur fram í 9. gr., 2. málsgr. c-liðar, og það varðar eignir sem fólk getur erft kannski úti á landi í afskekktum byggðum, en þar stendur:

,,Sé almennt markaðsverðmæti fasteignar talið lægra en fasteignamatsverð eignarinnar er erfingjum heimilt að óska eftir mati skv. 17.--23. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Er þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið, enda fylgi slík matsgjörð, sem ekki er eldri en fjögurra vikna gömul, erfðafjárskýrslu. Að öðru leyti gilda ákvæði II. kafla laga nr. 20/1991 um mat samkvæmt þessum staflið.``

Þetta er mikið réttlætismál fyrir fólk sem hefur erft slíkar eignir sem hafa orðið byrði þar sem ekki hefur verið hægt að koma þeim í verð og þurft að greiða af þeim skatt sem er langt ofan markaðsvirðis. Ég fagna því þessu ákvæði sérstaklega.

Síðan eru nokkur ákvæði sem eru hert viðurlög við undanskotum og öðru í þessu máli. Ef fólk er að reyna að skjóta undan þá eru refsiákvæðin stíf og ég er sammála því.

Í öðrum ríkjum, OECD-ríkjum t.d., er gert ráð fyrir að erfðafjárskattur sé af svipuðum stofni og tekjuskattur og er litið á hann sem slíkan. Erfðafjárskattar eru háir í þessum löndum, t.d. í Bandaríkjunum eru þeir mjög háir. Það er nú svo að einhvern veginn nær fé að fara í skjól hvort sem það eru fjármunir eða sauðfé, það leitar alltaf skjóls undan áreiti eða veðri og vindum, og þá stofna menn minningarsjóði, eða á frummálinu Trust Funds eða Memorial Funds þar sem erfingarnir skipa sjálfum sér í stjórn viðkomandi sjóðs og starfa og þiggja þar há stjórnarlaun. Það eru því til ýmsar aðferðir til að fara í kringum þetta.

Með því frv. sem hæstv. fjmrh. hefur lagt hér fram mun undanskotum fækka. Hvað þýðir það ef við lækkum skatta og fækkum undanskotum, gerum málið einfaldara? Jú, tekjur ríkissjóðs aukast allt í einu. Það er svo sérkennilegt. Það hefur gerst varðandi tekjuskatt á fyrirtæki, sem er nærtækasta dæmið. En hugsunin er sú að þetta muni duga fyrir kostnaði við skipti á búum.

Í dag er þetta þannig að þetta eru þrjú þrep, eins og hæstv. fjmrh. kom inn á áðan, það er þrep sem mjög fljótlega er komið upp í 10% við nánustu sifjar, í 2. flokki upp í 25% og í 3. flokki upp í 45%. Það eru til mörg dæmi sem geta verið erfið í þessu máli, eins og eitt dæmi sem ég veit um að fjarskyldur ættingi erfði íbúð eftir frænku sína og að henni látinni erfði hana ung frænka hennar og þá var orðið lítið eftir af íbúðinni þegar búið var að borga erfðafjárskattinn af þessu í tvígang, upp í 45%. Öll slík dæmi verða náttúrlega þurrkuð út með þessum nýju lögum.

Þessi skattur á eftir að aukast því að Íslendingar eru alltaf að verða ríkari og ríkari þjóð þannig að það eru alltaf meiri og meiri fjármunir sem verða fluttir á milli kynslóða. Ég er kannski ósammála mati fjmrn. að þetta séu 300--400 milljónir. Ég vil segja það og það er mín kenning og það getur vel verið að hún sé röng að skatttekjur ríkissjóðs vegna þess arna munu ekkert minnka, því eins og við vitum er reynt að fara í kringum lögin í dag og skipta ekki búum strax heldur láta þau vera í svona hægagangi eða lausagangi í einhvern tíma og skipta þeim síðan síðar þegar lítið er orðið eftir til þess að draga úr greiðslu á erfðafjárskatti. Með þessari nýju skattprósentu held ég að svo verði ekki. Þar af leiðandi er það mín skoðun að tekjutap ríkissjóðs verði ekkert.

Að öðru leyti vil ég segja það að ég fagna þessu frv. enn og aftur og vil þakka fjmrh. fyrir að setja þetta hér fram og mun eðlilega styðja málið af heilum hug.