Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:07:14 (3726)

2004-02-02 17:07:14# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:07]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessa skattalækkunarsamkeppni sem ríkir milli Sjálfstfl. og Samf. því að á þeim bæjum virðist það mesti glæpur sem hægt er að drýgja að keyra ekki niður skattbyrðina í landinu. Og mér finnst skorta mjög á að menn setji röksemdir sínar fram á heildstæðan hátt vegna þess að á því máli eru að sjálfsögðu tvær hliðar. Það má aldrei gleyma að spyrja til hvers skattar eru lagðir á þjóðina. Skattar eru m.a. lagðir á þjóðina til þess að fjármagna velferðarþjónustuna og dreifa byrðunum á réttlátan hátt í samfélaginu. Það er samhengi á milli skattalækkunaráforma ríkisstjórnarinnar og niðurskurðar t.d. á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi. Það er samhengi þar á milli. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hristir höfuðið vegna þess að hann og hans nótar í Sjálfstfl. eru að sjálfsögðu á því að umbylta heilbrigðiskerfinu og einkavæða það, óháð því hvort til eru peningar eða ekki. Hann vill koma þeirri þjónustu sem rekin er innan veggja sjúkrahúsanna, hins almenna heilbrigðiskerfis, út á markaðstorgið.

En það er samhengi á milli skattalækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar og niðurskurðaráforma. Það er staðreynd. Sjálfstfl. lofaði því fyrir síðustu kosningar að færa skattbyrðina niður um tæpa 30 milljarða kr. á ári hverju. Ég man ekki hvert skattalækkunarloforð Samf. var, gott ef það var ekki upp á 15 milljarða. Og Framsókn var einhvers staðar þarna á milli.

Hvað er byrjað að gera? Að hverju erum við að verða vitni núna þessa dagana? Það er búið að segja upp 50 einstaklingum á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Það er búið að taka ákvörðun um að skerða kjör 500 manns til viðbótar. Og við erum að fá núna fréttir úr þeirri stofnun sem vekja óhug í samfélaginu. Það er verið að svipta 40 geðsjúklinga á Arnarholti heimili sínu. Það er búið að hóta þessu fólki að loka heimilinu án þess að gefa nokkra vísbendingu um hvað verði um fólkið. Líknardeild Landspítalans er skilin eftir í uppnámi. Endurhæfing fyrir fjölfatlaða og krabbameinssjúklinga verður lögð niður og það er alls óvíst um framhaldið. Það er verið að segja upp starfsfólki á geðdeildum með þeim afleiðingum að þjónustan þar verður dregin saman. Okkur er sagt að öll svið sjúkrahússins verði fyrir þessari niðurskurðarsveðju. 10% samdráttur í þrifum. Það er verið að segja upp hreingerningarfólkinu líka.

Og hvers vegna vek ég máls á þessu, hæstv. forseti? Vegna þess að það er samhengi á milli frv. af því tagi sem hér er til umræðu og þessara ráðstafana. Það er samhengi þar á milli.

Hér eru gerðar ýmsar tillögur sem sumar hverjar eru til góðs, um breytingu á lögum um erfðafjárskatt. Menn eiga eftir að setjast yfir þær að sjálfsögðu. En þetta er jafnframt frv. þar sem lagt er til að rýra tekjur ríkissjóðs um 300--400 millj. kr. á ári hverju. Og það er gert með því að færa skattleysismörkin upp úr 60 þús. kr. í eina milljón, að falla frá stighækkandi skatti og taka upp tvö skattþrep, 5% og 10%.

Hv. þm. Gunnar Birgisson sagði að hér væri um tvísköttun að ræða, að erfðafjárskattur væri dæmi um tvísköttun. Samkvæmt mínum skilningi er þetta rangt. Skatturinn er lagður á vegna þess að nýir eigendur, jafnvel þótt þeir séu skyldir fyrri eiganda, eru að fá eignina í sínar hendur. Nýir eigendur eru með öðrum orðum að koma til sögunnar.

Hér hafa við umræðuna ýmsar greinar frv. verið ræddar og ég ætla í sjálfu sér ekki að fara út í slíkar umræður. Ég vil þó taka undir ábendingu sem fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni varðandi heimildir ráðherra þar sem um er að ræða sérstakar ástæður. Í greinargerð frv. segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt gildandi lögum eru maki og sambýlismaður eða sambýliskona undanþegin greiðslu erfðafjárskatts og eru ekki lagðar til breytingar á því fyrirkomulagi. Jafnframt er í gildandi lögum gert ráð fyrir heimild ráðherra til að undanþiggja greiðslu erfðafjárskatts ,,annars konar sambúðarform ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, svo sem varanleg örorka, alvarleg veikindi eða aðrar sambærilegar aðstæður``.``

Ég vil taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það kann að orka mjög tvímælis að nema þetta heimildarákvæði brott úr lögunum.

Hv. þm. Gunnar Birgisson telur að í ljósi þess að ætla megi að þessi framkvæmd á erfðafjárskattslögunum verði skilvirkari en þau lög sem við búum við núna muni tekjur ríkissjóðs rýrna minna en ætla má samkvæmt mati fjmrn. Þetta vitum við að sjálfsögðu ekki. Hins vegar er þarna um að ræða beinar tillögur um verulegar skattalækkanir eins og ég gat um áðan, bæði með stórhækkun skattleysismarkanna og sjálfrar skattprósentunnar.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta frv. nánar á þessu stigi. Það á eftir að fara til nefndar þar sem aðskiljanlegir aðilar verða kallaðir til og farið rækilega í saumana á hverri grein. En ég legg áherslu á upphafsorð mín, við megum aldrei gleyma því að skattar eru lagðir á þjóðina til þess m.a. að fjármagna velferðarþjónustuna. Skattar eru misjafnlega réttlátir. Þeir eru það. Skattar geta verið réttlátir og ranglátir eftir atvikum.

Samkvæmt mínum skilningi er erfðafjárskattur ekki ranglátur skattur. Ég áskil mér rétt til að skoða þetta frv. nánar en vildi engu að síður koma þessum almennu sjónarmiðum inn í umræðuna á þessu stigi.