Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:17:53 (3728)

2004-02-02 17:17:53# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:17]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er búinn að fylgjast nokkuð vel með umræðum það sem af er þinginu eða frá síðustu kosningum. Mér finnst að umræða Samf. um skattamál hafi einkennst af því að hvetja Sjálfstfl. til að standa við loforð sín um að skerða tekjur ríkissjóðs um 30 milljarða kr. á ári. Samfylkingin lagði fram almennar tillögur um skattalækkanir upp á, ef ég man rétt, 15 milljarða kr. Þær tillögur voru ekki útfærðar að öðru leyti að því er ég minnist. Ég hef varað við því að ráðist verði í mjög umfangsmiklar skattalækkanir án þess að séð sé fyrir endann á því hvernig þetta komi til með að bitna á velferðarþjónustunni.

En ég er sammála hv. þm. að því leyti að skattar eru misréttlátir. Ég sagði það sjálfur áðan. Auðvitað ber okkur að stefna að skattkerfi sem jafnar byrðunum en staðreyndin er að nú er ríkisstjórnin bráðum búin að selja það sem selt verður af eignum þjóðarinnar, alla vega í bráð. Verði í ofanálag samþykktar mjög stórtækar skattalækkanir mun það óhjákvæmilega bitna á þeirri þjónustu sem veitt er á vegum hins opinbera. Þá þurfum við að ræða hvar við viljum bregða niðurskurðarsveðjunni.

Ég er ekki reiðubúinn að ljá máls á slíku, alla vega ekki í heilbrigðisþjónustunni eða í hinu félagslega kerfi. En þangað beinir ríkisstjórnin sjónum sínum. Dæmin sanna það því miður.