Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:39:31 (3737)

2004-02-02 17:39:31# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég var farinn að velta því fyrir mér hvort ég fengi ekki orðið í þessari umræðu. Hér eru menn farnir að ræða um kjarasamninga í véfréttastíl. Ég hef heyrt það hjá fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar að hún sé ekki að fara inn í samninga um skattamál, verkalýðshreyfingin sé fyrst og fremst að fara í samninga um laun og kjör. Og ég tel að ef menn ætla að fara í slíkar umræður hljóti allir aðilar á vinnumarkaði að vera kallaðir þar til. Það gerðist ekki í samningunum 1997 sem hæstv. fjmrh. vísaði hér til.

Ég vek athygli á því að verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur verið að finna til samstöðu að undanförnu gegn áformum ríkisstjórnarinnar um stórfelldan niðurskurð í velferðarkerfinu. Það er verið að segja upp tugum og hundruðum einstaklinga á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi, verið er að skerða kjör hjá á sjötta hundrað manns og það stendur til að svipta 200--300 manns atvinnu sinni. Ég held að þegar menn fara hér út í þessar gamalkunnu hótanir um stórfelldar skattalækkanir hljóti þeir að taka þá umræðu líka hvað þeir ætli að gera við vistmenn í Arnarholti, 40 geðsjúklinga sem ríkisstjórnin hótar að reka út á gaddinn. Hvað ætla menn að gera við stoðþjónustuna við krabbameinssjúka? Hvað ætla menn að gera við líknardeildina á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi?

Það þýðir ekkert að ræða þessar skattalækkunarhótanir án þess að ræða einnig um útgjöldin og fyrirhugaðan niðurskurð ríkisstjórnarinnar í velferðarþjónustunni á sjúkrahúsum landsins. Þetta er umræða sem hæstv. fjmrh. hefur skotið sér undan að taka en við hljótum að ræða einnig í þessu samhengi.

Fyrir nokkrum dögum komu fulltrúar allra helstu verkalýðssamtaka í landinu saman til fundar í Austurbæ í Reykjavík. Það voru fulltrúar frá ASÍ, BHM, BSRB, Kennarasambandi Íslands, læknasamtökunum, Öryrkjabandalagi Íslands og nánast öllum sjúklingasamtökum í landinu sem stóðu þar sameiginlega að ályktun gegn niðurskurðaráformum og ekki bara áformum heldur ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Og það stendur til, eftir því sem mér er tjáð, að afhenda ályktun þessa fundar í Stjórnarráðinu klukkan hálftvö á morgun.

Fyrst farið er að vísa til verkalýðshreyfingar og kjarasamninga og kjara almennt þá skulum við taka þessa umræðu einnig vegna þess að í tengslum við skatta þarf að ræða útgjöld og þjónustu.