Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:43:14 (3738)

2004-02-02 17:43:14# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:43]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það hefur lengi legið fyrir að þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin fyrirhugar yrðu gerðar í tengslum við kjarasamninga, enda er það mjög eðlilegt. Ef skattar eru lækkaðir á hæstu laun hljóta þau sömu laun ekki að þurfa eins miklar kjarabætur og lægstu laun. Og þá er líka hægt að bæta lægstu launin umfram hæstu launin, sem lengi hefur verið markmið.

Varðandi ummæli hv. þm. um Landspítala -- háskólasjúkrahús þá nefnir hann 50 uppsagnir, að í kringum 50 manns hafi fengið uppsagnir. Það kann að vera rétt. Það er 1% af fjölda starfsmanna. Ég nefni í þessu sambandi að á síðasta ári var stöðugildum fjölgað í því fyrirtæki um 113 þannig að verið er að segja upp helmingnum af aukningu síðasta árs.

Einnig vil ég benda á það að sá spítali hefur fengið umtalsverða hækkun á fjárlögum hvert einasta ár svo nemur milljörðum, mörgum, mörgum milljörðum. Það er því varla hægt að tala um samdrátt, verið er að minnka aukninguna ef eitthvað er.