Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:49:49 (3742)

2004-02-02 17:49:49# 130. lþ. 54.7 fundur 480. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (EES-reglur, fjárfestingar o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:49]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Frumvarpið er fjórþætt.

Í fyrsta lagi er lagt til að skilyrði um starfsstöð hér á landi vegna þeirra aðila er veita viðtöku iðgjaldi vegna viðbótartryggingaverndar verði afnumið.

Í öðru lagi er innleidd tilskipun nr. 98/49/EB, um verndun viðbótarlífeyrisréttinda launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem flytjast á milli aðildarríkja.

Í þriðja lagi eru í frv. ákvæði er snúa að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í fjárfestingarsjóðum samkvæmt lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

Loks er lagt til að ákvæði um dreifingu innlána lífeyrissjóða hjá innlánsstofnunum verði breytt.

Mun ég nú víkja nánar að hverju efnisatriði fyrir sig.

Samkvæmt núgildandi lögum er viðskiptabönkum, sparisjóðum, verðbréfafyrirtækjum og líftryggingafélögum heimilt að taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd, enda hafi viðkomandi fyrirtæki starfsstöð hér á landi. Þetta fyrirkomulag stangast hins vegar á við túlkun Evrópudómstólsins á 49. gr. Rómarsáttmálans og þar af leiðandi 36. gr. EES-samningsins um frjálsa þjónustustarfsemi. Þannig þykir núgildandi skilyrði um starfsstöð fjárvörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar hér á landi brjóta í bága við 36. gr. EES-samningsins um frelsi ríkisborgara aðildarríkja ESB og EFTA til að veita þjónustu.

Í frv. er því lagt til að erlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum, verðbréfafyrirtækjum og líftryggingafélögum, sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, verði, að uppfylltum vissum skilyrðum, heimilt að veita þjónustu skv. II. kafla laganna, þ.e. að taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd.

Í frv. er vísað til ákvæða laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, og byggt á þeirri aðferðafræði sem þar er mótuð varðandi heimildir og hlutverk Fjármálaeftirlitsins gagnvart erlendum aðilum er veita fjármálaþjónustu hér á landi. Í frv. er lagt til að fjmrh. geti sett nánari reglur um með hvaða hætti rétthöfum skuli tryggðar upplýsingar um skilmála samninga um lífeyrissparnað og viðbótartryggingavernd, svo sem um efni þeirra, form og áunnin réttindi.

Með frv. er í öðru lagi lagt til að innleidd verði ákvæði 6. og 7. gr. tilskipunar nr. 98/49/EB, um verndun viðbótarlífeyrisréttinda launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem flytjast milli aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Markmið tilskipunarinnar er að standa vörð um réttindi félaga sem flytja frá einu aðildarríki til annars í lífeyriskerfum og stuðla þannig að því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir frjálsum flutningum launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga innan bandalagsins.

Ákvæðið í frv. tekur til réttinda launþega sem koma hingað til lands til starfa frá höfuðstöðvum sem eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt ákvæðinu skal þeim heimilt að greiða áfram til þess lífeyriskerfis sem þeir eiga aðild að með sama hætti og þeim væri heimilt ef þeir öfluðu teknanna í því landi þar sem höfuðstöðvarnar eru að því tilskildu að lífeyriskerfið falli ekki undir reglugerð nr. 1408/71/EBE. Í þessu sambandi er rétt að árétta að hinn skyldubundni hluti lífeyrisréttinda í íslenskum lífeyrissjóðum, samanber ákvæði I. kafla laganna, fellur undir reglugerð 1408/71/EBE og þar af leiðandi ekki undir tilskipun nr. 98/49/EB.

Í þriðja lagi er með frv. þessu lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í fjárfestingarsjóðum sem skilgreindir eru í lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, með svipuðum hætti og verðbréfasjóðum. Með nýjum lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, sem samþykkt voru á Alþingi sl. vor, voru gerðar breytingar á þýðingu hugtaksins ,,verðbréfasjóður`` og það þrengt frá því sem áður var. Þannig nær hugtakið ,,verðbréfasjóður`` ekki yfir nýja tegund sjóða með rýmri fjárfestingarheimildir, þ.e. fjárfestingarsjóði, sem eingöngu er heimilt að markaðssetja hérlendis. Umrædd breyting hefur áhrif á túlkun ákvæða laganna um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem rétt þykir að bregðast við.

Áður en lengra er haldið er rétt að víkja aðeins nánar að muninum á verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum. Samkvæmt fyrrnefndum lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði merkir hugtakið ,,verðbréfasjóður`` nú sjóð með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem stofnaður er og rekinn af rekstrarfélagi og gefur út hlutdeildarskírteini sem eru innleysanleg að kröfu eigenda að eignum sjóðsins.

Í athugasemdum með frv. því er síðar varð að lögum, nr. 30/2003, kemur m.a. fram að verðbréfasjóður uppfylli öll skilyrði tilskipunar um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Þá segir enn fremur í athugasemdunum að verðbréfasjóður sé ekki vogunarsjóður með frjálslegar fjárfestingarheimildir. Til að koma í veg fyrir mikla áhættu sé verðbréfasjóði óheimilt að fjárfesta meira en 10% af eignum í öðru en skráðum verðbréfum á skipulegum verðbréfamarkaði. Að sama skapi séu ítarlegar kröfur um áhættudreifingu í fjárfestingarstefnukafla verðbréfasjóðalaga.

Samkvæmt fyrrnefndum lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði merkir fjárfestingarsjóður hins vegar sjóð með starfsleyfi en án heimildar til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu. Slíkir sjóðir gefa út hlutdeildarskírteini eða hlutabréf. Fjárfestingarsjóðir uppfylla ekki tilskipun um sameiginlega fjárfestingu og geta því ekki markaðssett skilríki sín á Evrópska efnahagssvæðinu án starfsleyfis í viðkomandi ríki. Um markaðssetningu fjárfestingarsjóða í öðru ríki fer því eftir lögum þess ríkis.

Fjárfestingarsjóðir geta verið í tvenns konar formi. Þeir geta verið stofnaðir og reknir af rekstrarfélagi, líkt og verðbréfasjóðir, eða verið reknir í hlutafélagsformi. Ólíkt verðbréfasjóðum geta viðskiptavinir í fjárfestingarsjóðum ekki innleyst skírteini sín án fyrirvara.

Fjárfestingarheimildir fjárfestingarsjóða eru mun áhættusamari en verðbréfasjóða, m.a. hvað varðar ótakmarkaðar heimildir til fjárfestinga í óskráðum verðbréfum, minni áhættudreifingu og heimildir til lántöku að tilteknu marki.

Samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 36. gr. lífeyrislaganna kemur fram að lífeyrissjóði sé heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða. Samkvæmt lífeyrislögunum er lífeyrissjóðum heimilt að eiga allt að 25% af hlutdeildarskírteinum, útgefnum af sama verðbréfasjóði, en þó má samanlögð eign lífeyrissjóðs í verðbréfum, útgefnum af sama aðila eða aðilum sem tilheyra sömu samsteypunni, ekki vera meira en 10% af hreinni eign sjóðsins. Í fyrrnefndum 7. tölulið er hins vegar ekki vikið að heimildum til fjárfestinga í fjárfestingarsjóðum. Að óbreyttum lögum falla heimildir til fjárfestinga í fjárfestingarsjóðum undir 8. tölulið 36. gr., þ.e. um önnur verðbréf, og eftir atvikum 6. tölulið sömu greinar, um hlutabréf fyrirtækja. Telja verður það of þröngar skorður miðað við eðli fjárfestingarsjóðanna.

Í samræmi við það sem að framan er rakið er með frv. þessu lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í fjárfestingarsjóðum með svipuðum hætti og verðbréfasjóðum. Í ljósi þess að um áhættusamari sjóðaafurð er að ræða, sem nýtur ekki skilyrðislausrar innlausnarskyldu að kröfu eigenda sjóðs, er lagt til að heimildir til fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum eða hlutum sama fjárfestingarsjóðs, eða einstakrar deildar hans, verði þrengri en gildir um verðbréfasjóði. Þykir hæfilegt að miða við 15% í því efni.

Í fjórða lagi, virðulegi forseti, vildi ég vekja athygli á því að á sl. missirum hafa vaknað spurningar um hvernig túlka beri 5. mgr. 36. gr. lífeyrislaganna og hvort innlán falli undir þá reglu að samanlögð eign sjóðs í verðbréfum, útgefnum af sama aðila eða aðilum, sem tilheyra sömu samsteypunni, skuli ekki vera meira en 10% af hreinni eign sjóðsins. Rök hníga til þess að túlka beri umrædda lagagrein með þeim hætti að takmarkanir 5. mgr. 36. gr. laganna nái einnig til innlána. Bent hefur verið á að það sé erfiðleikum háð að dreifa innlánum á tíu aðila í ljósi þess hve fáar innlánsstofnanir eru hérlendis. Verður að telja varhugavert með tilliti til áhættudreifingar að lífeyrissjóðum sé heimilt að fela innlán sjóðs eingöngu einni lánastofnun eða sparisjóði. Til samanburðar skal bent á að skv. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, er miðað við 20% vegna innlána, þ.e. verðbréfasjóðum er ekki heimilt að binda meira en 25% af eignum sínum í innlánum sama fjármálafyrirtækis.

Í frv. þessu er lagt til að lífeyrissjóði verði óheimilt að binda meira en 25% af eignum sínum í innlánum sama banka eða sparisjóðs.

Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frv., virðulegi forseti, og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.