Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:59:49 (3743)

2004-02-02 17:59:49# 130. lþ. 54.7 fundur 480. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (EES-reglur, fjárfestingar o.fl.) frv., GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:59]

Gunnar Örlygsson:

Vriðulegi forseti. Í 4. gr. frv., sem hér liggur fyrir, er kveðið á um takmarkanir á hlutdeildareign lífeyrissjóða í fjárfestingarsjóðum, bönkum eða sparisjóðsdeildum. Ég vil beina spurningu til hæstv. fjmrh. hvort 4. gr. megi skilja sem svo að lífeyrissjóðum sé óheimilt að taka höndum saman og stofna banka.

Eftir þau umskipti sem orðið hafa á fjármálamarkaði, þar ber hæst að nefna sölu ríkisbankanna á liðnum árum og í kjölfarið ótrúlegan hagnað þeirra bankastofnana sem nú eru á markaði, er útlit fyrir enn frekari samþjöppun á íslenskum bankamarkaði. Með tilliti til aðstæðna tel ég mikilvægt að lífeyrissjóðirnir skoði gaumgæfilega möguleika sinn til útrásar á bankamarkaði. Hér vitna ég til viðlíkrar bankastofnunar og gamli Alþýðubankinn var. Ég tel að slík útrás lífeyrissjóðanna mundi koma taumhaldi á þá frjálshyggju sem einkennir markaðinn og tryggja eðlileg kjör allra landsmanna á nauðsynlegri þjónustu sem bankaþjónustan er. Ég tel íslenskan bankamarkað þarfnast þess aðhalds sem felast mundi í rekstri bankastofnunar sem með dreifðri eignaraðild mundi tryggja sínum eigendum viðunandi kjör, nefnilega öllum landsmönnum.