Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 18:15:05 (3747)

2004-02-02 18:15:05# 130. lþ. 54.7 fundur 480. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (EES-reglur, fjárfestingar o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[18:15]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki mikið við mál hv. þm. Péturs Blöndals að athuga varðandi upplýsingar hans um útvegun lánsfjár á sínum tíma. Ég held hins vegar að sú staða gæti alveg verið að koma upp aftur hér á landi.

Mér er fyllilega kunnugt um það, hv. þm., að í hinum dreifðu byggðum Íslands hafa menn ekki sömu möguleika og á höfuðborgarsvæðinu til að fá lánsfé í bankastofnunum til framkvæmda hvort sem er til húsbygginga eða annars. Þar er mikill munur á, virðulegur forseti. Það liggur m.a. í því að bankastofnanir hafa á undanförnum árum --- þá er ég að tala um hina stóru viðskiptabanka --- horft sérstaklega til þess að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu væri öruggara og líklegra til að hækka í gegnum árin og skárra að eiga þar hlutdeild en í hinu breytilega húsnæðisverði úti á landi, sem hefur tengst aðgerðum stjórnvalda, m.a fiskveiðistjórnarkerfinu svo að eitthvað sé nefnt.

Það liggur því fyrir, virðulegi forseti, að það er allt annað mál að nálgast lánsfé úti á landi en hér í Reykjavík.

Það er eitt sem hins vegar kom mér á óvart í máli hv. þm., sem ég vissi ekki. Ég tel að hann viti það sjálfsagt betur en ég, þ.e. að hér sé allt yfirfljótandi í peningum, líka peningum sem enginn á.