Boðun til ríkisráðsfundar

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 13:42:18 (3756)

2004-02-03 13:42:18# 130. lþ. 55.91 fundur 285#B boðun til ríkisráðsfundar# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég hef staðið fyrir því að boða ríkisráðsfundi nokkrum sinnum, sennilega 30 sinnum eða svo á þessum ferli. Þegar ríkisráðsfundir eru ekki í tengslum við gamlárskvöld boðar forsrh. þá með tiltölulega skömmum fyrirvara eða öllu heldur leggur til boðun þeirra með tiltölulega skömmum fyrirvara. Í þessu tilviki var fundur boðaður þegar ljóst var að samkomulag milli ráðuneyta um nýja reglugerð fyrir Stjórnarráð Íslands var tilbúið. Fyrr var ekki fundurinn boðaður en hann var boðaður með tiltölulega skömmum fyrirvara.

Ef menn eru að halda því hér fram í þekkingarleysi sínu, sem hefur verið í fjölmiðlum nokkurn veginn algjört, að það eigi að kalla forseta heim fyrir 7 mínútna ríkisráðsfund ber með sama hætti í hvert skipti sem handhafar skrifa upp á lög að hafa samband við forseta og biðja hann um að skjótast heim. Þessi athöfn var á engan hátt öðruvísi athöfn handhafa forsetavalds en sú að skrifa upp á lög, staðfesta lög sem er mikilvægasta skylda forseta Íslands. Hér er búið að snúa allri spurningunni á haus. Hví var ekki haft samband við forseta Íslands? Hin raunverulega spurning er þessi samkvæmt þessum bréfum: Hví kaus forseti að vera erlendis í einkaerindum 1. febrúar, á 100 ára afmæli stjórnarráðs og þingræðisins? Svo vil ég spyrja: Hví í ósköpunum gerir Samf. það glappaskot að taka þetta vitlausa mál upp á sínar herðar? (Gripið fram í: Ha?)