Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 14:33:18 (3759)

2004-02-03 14:33:18# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[14:33]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi spurning lýsir nákvæmlega því sem við þurfum að fara í gegnum. Hér spyr hv. þm.: Hvað felur þessi áætlun í sér? Það er óljóst hvaða reglur eiga að gilda varðandi verndina, hvað má gera og hvað ekki. Því er ekki hægt að svara á þessari stundu.

Í þeirri náttúruverndaráætlun sem við erum að ræða núna, um þessi svæði, er þingið einungis að fjalla um hvort við erum að velja rétt svæði í stefnumótun okkar. Þegar þingið er því búið að samþykkja þessa áætlun, sem ég vona að verði gert í vor, hefur það gefið grænt ljós á að við vinnum á næstu fimm árum að því að ná fram verndun á þessum svæðum. Við vinnum fyrst á þeim en ekki einhverjum öðrum. Reyndar eru nokkur önnur svæði í slíku ferli nú þegar og auðvitað hættum við því ekki að vinna í þeim.

Við afgreiðslu þessa máls mun þingið ekki að segja hvað megi gera á hverju svæði. Þingið á ekki að segja hvar mörk eiga að liggja á hverju svæði, hve stór eða lítil svæðin sem á að vernda verði. Allt það ferli er eftir. Það mun taka fimm ár. Kannski tekur það fleiri ár en við vonum að við náum þessum svæðum í gegn á fimm árum.

Við þurfum að setjast niður yfir hvert einasta svæði og ræða við sveitarstjórnarmenn, landeigendur og aðra hagsmunaaðila til að móta reglurnar á svæðunum. Þinginu er ekki ætlað að vernda þessi svæði, það er miklu lengra og ítarlegra ferli en þingið getur tekist á við núna. Þingið er einungis að samþykkja þessa stefnumótun af því að hér er um þáltill. að ræða, svipaða og vegáætlun, skógræktaráætlun og annað slíkt.